1. Forsíða
  2. Vinaliðaverkefnið fékk hvatningarverðlaun dags gegn einelti 2018

Vinaliðaverkefnið fékk hvatningarverðlaun dags gegn einelti 2018

Hvatningarverðlaun veitt á degi gegn einelti 8. nóvember 2018

Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra veitti í dag Vinaliðaverkefninu hvatningarverðlaun dags gegn einelti 2018. Guðjón Örn Jóhannsson verkefnastjóri verkefnisins og Selma Barðdal Reynisdóttir tóku við verðlaununum við athöfn sem haldin var í Öldutúnsskóla, Hafnarfirði.

Vinaliðaverkefnið er forvarnarverkefni sem hvetur nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútum. Verkefnið miðar að því að auka jákvæð samskipti, hreyfingu og vellíðan og vinnur þannig gegn einelti. Markmið verkefnisins er að bjóða nemendum fjölbreyttara úrval afþreyingar í löngu frímínútunum, þannig að nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Nemendur í 3.-7. bekk velja einstaklinga sem fá hlutverk Vinaliða en þeir hafa svo umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang og taka til eftir leikina.

Verkefnið, sem er norskt að uppruna, hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í um 1200 skólum á Norðurlöndum. Árskóli á Sauðárkróki heldur um stjórn á verkefninu á Íslandi og í dag taka 46 skólar þátt í verkefninu hér á landi.

          

 

 

skrifað 08. NóV. 2018.