1. Forsíða
  2. Vinningshafar í Vísubotni 2018

Vinningshafar í Vísubotni 2018

Úrslit í vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2018, liggja nú fyrir. Menntamálastofnun, í samstarfi við KrakkaRúv, efnir til keppninnar ár hvert í tilefni af degi íslenskrar tungu. Í keppninni spreyttu nemendur sig á því að botna fyrriparta eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson.

Að þessu sinni bárust okkur samtals 900 vísubotnar frá 22 skólum víðs vegar að af landinu og er það töluvert meiri þátttaka heldur en síðast. Ánægjulegt er að sjá og heyra frá kennurum og nemendum að áhugi fyrir vísnagerð er að aukast ár frá ári og má með sanni segja að Vísubotn hafi fest sig í sessi en keppnin var nú haldin í áttunda sinn.

Frá yngsta stigi bárust samtals 356 vísubotnar, 262 frá miðstigi og 282 botnar frá unglingastigi.  Einum nemanda á hverju stigi voru veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjal fyrir besta vísubotninn. Á mið- og unglingastigi var gerð krafa um ljóðstafi og rím en á yngsta stigi var fyrst og fremst hugað að rími.

KrakkaRÚV var með umfjöllun um keppnina 22. janúar þar sem vinningshafar lásu upp vísurnar. 

Á yngsta stigi var Guðmundur Þór Ólafsson hlutskarpastur. Hann var nemandi í 3. bekk Sæmundarskóla í Reykjavík þegar hann tók þátt í keppninni en stundar nú nám við Norðlingaskóla. Vísubotn hans er hér feitletraður: 

Margt er gott að glíma við,
gaman er að lita.
Líka er hægt af gömlum sið,
góða bók að rita.

 

Á miðstigi hlaut Lilja Rut Halldórsdóttir, nemandi í 6. bekk Álfhólsskóla í Kópavogi, verðlaun fyrir að botna bestu vísuna í sínum aldursflokki: 

Óskalista enn á ný
ætla ég að gera.
Ljóðabók mig langar í,
ljúf á hún að vera.

 

Á unglingastigi fékk Sölvi Kristbjörnsson, nemandi í 8. bekk Foldaskóla í Reykjavík, verðlaun fyrir sinn vísubotn: 

Snemma ég á fætur fer,
fletti mínum síma.
Kíki á hvað klukkan er,
kem á réttum tíma.

 

Menntamálastofnun óskar vinningshöfum til hamingju með frábæran árangur og þakkar grunnskólanemum og kennurum fyrir þátttökuna. Það er von okkar að vísnasamkeppnin verði nemendum og kennurum hvatning til að halda kveðskaparlistinni á lofti.

Hægara sagt en gert var fyrir dómnefnd að velja vinningshafa því margir vel ortir botnar bárust. Hér birtum við fleiri vísubotna sem voru á meðal þeirra bestu:

Yngsta stig

Miðstig

Unglingastig

skrifað 21. JAN. 2019.