1. Forsíða
  2. Vinningshafar Ljóðaflóðs

Vinningshafar Ljóðaflóðs

Úrslit í ljóðasamkeppni grunnskólanema, Ljóðaflóð 2020, liggja nú fyrir. Menntamálastofnun, í samstarfi við KrakkaRúv, efndi til keppninnar í tilefni af degi íslenskrar tungu. Í keppninni var ljóðformið frjálst og ánægjulegt að sjá hversu fjölbreytt ljóð bárust, bæði hvað varðar form og innihald en efni þeirra var m.a. um lífið sjálft, jafnrétti, samskipti, gleði, sorg, náttúruna og veiruna sem herjar á heiminn.

Nemendur sömdu bæði bundin og óbundin ljóð, hækur, tönkur og söguljóð en alls fengum við 191 ljóð inn í keppnina frá 22 skólum víðs vegar að af landinu. Frá yngsta stigi bárust 69 ljóð, 88 ljóð frá miðstigi og 34 ljóð frá unglingastigi.

Einum nemenda á hverju stigi voru veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjal fyrir besta ljóðið. Dómnefnd átti úr vöndu að ráða þar sem mörg vel samin ljóð bárust en vinningshafarnir eru:

 

Hera Fönn Lárusdóttir, nemandi í 4. bekk Grunnskólans í Hveragerði, fyrir ljóðið Fæðist, lifir, deyr. Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á yngsta stigi má sjá hér.

Embla Karen Egilsdóttir Opp, nemandi í 6. bekk Melaskóla í Reykjavík, fyrir ljóðið Nýtt tungl. Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á miðstigi má sjá hér.

Unnsteinn Sturluson, nemandi í 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar, fyrir ljóðið Ljósið mun sýna þér sannleikann. Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á unglingastigi má sjá hér.

Verðlaunaljóð í ljóðasamkeppninni Ljóðaflóð 2020:

Fæðist, lifir, deyr

Þegar ég fæðist, þá er spurning mín sú:
Hví hélt lífið að ég væri betri en þú?
Hví hélt lífið að ég myndi ekki eiga við vandamál að stríða?
Hví hélt lífið að mér myndi ganga betur að skríða?
Og gæti lært úr því að smíða?

Svo tek ég af skarið,
og spyr hví var lífið að velja mig?
En ég fæ alltaf sama svarið,
̶  tilviljun.

Nú er ég komin á næsta stig
og get ekki beðið eftir því að sýna mig.

Ég lifi og það er gaman.
Ég lifi vetur, vor, sumar og haust, allar árstíðirnar saman.

Stundum er ég góð.
Stundum er óð.
Stundum er ég gleymin.
Stundum er ég feimin.
Stundum er ég hrædd,
lítil og líður eins og ég sé nýfædd.

Ég lifi og það er gaman.
Það er gaman því við erum saman.

Nú er ég orðin gömul frú.
Það vita bæði ég og þú.
Að æviskeiðið mitt er á enda runnið.
Ég hef tapað, jafnteflað og unnið.

Ég hef veg minn í gegnum lífið rutt.
En verð samt að viðurkenna að lífið er alltof stutt.

Hera Fönn Lárusdóttir, verðlaunahafi á yngsta stigi

Nýtt tungl

Þú hjálpaðir mér
upp úr myrkrinu.
Þú lýstir upp nóttina
líkt og tungl.
Þú særðir mig,
hvorki sól né tungl,
aðeins kaldar stjörnur
skynseminnar.

Embla Karen Egilsdóttir Opp, verðlaunahafi á miðstigi

Ljósið mun sýna þér sannleikann

Ég sá ljósið koma 
á himininn, 
það sýndi mér sannleikann.  
Að við löbbum  
en förum ekki neitt. 
Að við borðum  
en samt er ekkert nóg. 
Að við gefum  
en ekkert er þar. 
Að við elskum  
eitthvað sem er ekki til. 
Því lífið heldur áfram  
þótt þú og ég förum, 
því lífið heldur áfram  
þó ekkert sé þar. 

Unnsteinn Sturluson, verðlaunahafi á unglingastigi

Menntamálastofnun óskar vinningshöfum til hamingju með frábæran árangur og þakkar grunnskólanemum og kennurum fyrir þátttökuna. Það er von okkar að ljóðasamkeppnin Ljóðaflóð verði nemendum hvatning til að virkja sköpunarmátt sinn og muni efla ljóðlistina í grunnskólum landsins.

 

 

skrifað 13. JAN. 2021.