Í tilefni af degi íslenskrar tungu 16. nóvember efnir Menntamálastofnun til vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2018. Þetta er áttunda árið í röð sem keppnin er haldin og þriðja árið í samstarfi við KrakkaRúv.
Í keppninni spreyta nemendur sig á því að botna fyrriparta eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson. Um er að ræða tvo fyrriparta fyrir hvern aldursflokk á yngsta-, mið- og unglingastigi. Fyrir besta vísubotninn á hverju stigi verða veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjöl. Vonast er til að sem flestir skólar taki þátt í þessu verkefni. Hér má lesa um úrslit keppninnar í fyrra.
Hér fyrir neðan má smella á verkefni fyrir hvert stig. Nemendur á mið- og unglingastigi þurfa að huga vel að ljóðstöfum og rími en ætlast er til að nemendur á yngsta stigi einbeiti sér fyrst og fremst að ríminu. Ragnar Ingi Aðalsteinsson hefur tekið saman stuttar og hnitmiðaðar bragfræðileiðbeiningar til kennara og einnig bendum við á bók hans Bragfræði fyrir unglingastig grunnskóla.
Skilafrestur er til 12. desember 2018
Hægt er að senda vísurnar rafrænt á netfangið [email protected] eða með bréfpósti:
Menntamálastofnun
Vísubotn 2018
B.t. Elínar Lilju Jónasdóttur
Víkurhvarfi 3
203 Kópavogi
Einnig er hægt að taka þátt á síðu KrakkaRúv.
Á safnvef Menntamálastofnunar, Dagur íslenskrar tungu, er fjöldi áhugaverðra verkefna sem nota má í tilefni dagsins. Þar má einnig nálgast efni vísnasamkeppninnar undir hnappnum Vísur og limrur. Mennta- og menningarmálaráðuneytið beinir í ár sjónum að nýyrðum en Jónas Hallgrímsson var ötull nýyrðasmiður og á síðu dags íslenskrar tungu á Fésbókinni eru rifjuð upp nokkur af þeim orðum sem hann telst höfundur að.
Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis er einnig fjölbreyttur hugmyndabanki sem kennarar geta nýtt sér og upplýsingar um dagskrá og viðburði víða um land en þar er fjallað um viðburði og annað er að deginum viðkemur.
Umfjöllun í Krakkafréttum fimmtudaginn 15. nóvember.