Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum var skipað af Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra 13. febrúar 2018 og hefur tekið til starfa. Fagráðið er skipað eftirtöldum aðilum: Sigríði Láru Haraldsdóttur sem jafnframt er formaður, Sigrúnu Garcia Thorarensen og Bóasi Valdórssyni. Fagráð eineltismála í grunnskólum var skipað árið 2012, en nýskipað fagráð tekur einnig til mála sem varða nemendur í framhaldsskólum.
Hlutverk fagráðsins er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf. Hægt er að vísa eineltismálum til fagráðsins ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn á þeim innan skóla eða sveitarfélags eða vegna meints aðgerðaleysis sömu aðila. Skal þá fagráðið veita ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem því berast. Öll mál sem send eru til fagráðsins eru skoðuð og metin og síðan tekin fyrir í fagráði að uppfylltum skilyrðum um málsmeðferð.
Þeir sem geta leitað til fagráðsins eru nemendur, foreldrar/forráðamenn og starfsfólk grunn- og framhaldsskóla. Einnig aðilar sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi sem hefur stoð í grunnskólalögum.
Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum starfar á grundvelli ákvæða í reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum og reglugerð nr. 326/2016 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskóla. Um fagráðið gilda verklagsreglur um starfsemi fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum, nr. 30/2019. Fagráðið starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis, en umsýsla þess er hjá Menntamálastofnun. Nánari upplýsingar um fagráðið og vísun mála til þess má finna hér.