Niðurstöður samræmdra könnunarprófa hafa nú verið sendar til grunnskóla sem munu afhenda þær nemendum og kynna. Prófin voru lögð fyrir nemendur í 9. og 10. bekk í íslensku, ensku og stærðfræði. Tilgangur þeirra er að veita nemendum, foreldrum og skólum upplýsingar um námsstöðu nemenda miðað við þau viðmið um hæfni sem sett eru í aðalnámskrá. Mikilvægt er að nemendur kynni sér vel niðurstöður prófanna og nýti sér til leiðbeiningar um áherslur í námi sínu.
Uppbygging og gerð samræmdra könnunarprófa
Samræmdu könnunarprófin taka mið af hæfni- og matsviðmiðunum sem gefin eru út í aðalnámskrá grunnskóla. Einkunnir eru gefnar í bókstöfum A, B+,B, C+ og D sem endurspegla matsviðmið sem gefin eru út fyrir hvert aldursstig í hverju grunnfagi. Hér fyrir neðan er dæmi um hæfniviðmið fyrir stærðfræði í 8.-10. bekk.
Sömu viðmið liggja til grundvallar prófunum í 9. og 10. bekk en meiri kröfur eru gerðar um hæfni í 10. bekk. Notuð voru tvö ólík próf á hverju aldurstigi. Þar sem ekki er hægt að útiloka að prófin séu misþung eru notaðar sérstakar tölfræðilegar aðferðir til að leiðrétta fyrir mismun á þyngd prófanna í úrvinnslu.
Samræmd könnunarpróf hafa verið framkvæmd með svipuðu móti í mörg ár. Hvert fag hefur 2-4 prófhluta og innan þeirra eru skilgreind nokkur áherslusvið með misþungum spurningum. Á hverju ári voru skrifaðar nýjar spurningar fyrir hvern prófaatriða hóp og síðan voru þessar spurningar forprófaðar í grunnskólum víða um land. Engar þessara spurninga var hægt að endurnýta þar sem þær voru birtar opinberlega. Með innleiðingu rafrænna prófa breyttust aðstæður þannig að einstakar spurningar eru ekki birtar en þess í stað eru gefin sýnishorn með sambærilegum spurningum og á prófinu.
Hér að neðan má síðan sjá upplýsingar um prófspurningu í stærðfræði eins og hún birtist í prófagrunni:
Rafræn fyrirlögn – áreiðanleg próf
Samræmd könnunarpróf voru nú í fyrsta skipti lögð fyrir með rafrænum hætti á unglingastigi. Með því að leggja prófin fyrir rafrænt opnast nýir möguleikar við þróun þeirra. Þar sem hægt er að nota prófatriði oftar en einu sinni og tengja þau betur við skilgreinda hæfni verða prófin áreiðanlegri og gefa betri mynd af stöðu nemenda.
Til að sannreyna þyngd prófspurninga og skilgreina viðmið fyrir hæfnieinkunnir sem gefnar eru í bókstöfum (A,B,C,D) fékk Menntamálastofnun til liðs við sig yfir 30 sérfræðinga úr hópi grunnskólakennara, háskólakennara, skólastjóra, og stjórnenda. Þessi hópur fór yfir prófspurningar og lagði mat á þær út frá sinni sérfræðiþekkingu og reynslu. Hópur reyndra kennara tók síðan þátt í að fara yfir prófin og leggja mat á úrlausnir.
Undirbúningur og framkvæmd
Undirbúningur fyrir breytingu á fyrirlögn samræmdra könnunarprófa frá því að vera handskrifuð á pappír yfir á rafrænt form hefur staðið yfir í rúmt ár.
Fjöldi samráðs- og kynningafunda voru haldnir m.a. með fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélagi Íslands, Kennarasambandi Íslands, Félagi grunnskólakennara, Ungmennaráði Menntamálastofnunar og Heimili og skóla. Að auki voru farnar kynningarferðir um landið.
Síðastliðið vor var gerð könnun á vél- og hugbúnaði skóla til að athuga hvernig skólar voru undir það búnir að leggja samræmd könnunarpróf fyrir á rafrænu formi. Þar kom í ljós að víða þurfti að bæta búnað og brugðust sveitarfélög og skólar afar vel við að lagfæra það sem á vantaði. Við fyrirlögn prófanna komu mjög fá vandamál upp varðandi vél- og hugbúnað skólanna. Eiga forsvarsmenn sveitarfélaga, skólastjórar og kennarar mikið hrós skilið fyrir sinn þátt í framkvæmdinni.
Villur í forritun urðu til þess að nokkrir nemendur með stuðningsúrræði fengu ekki réttan prófkóða og þar með komu upp vandkvæði við að veita þeim viðeigandi þjónustu og svigrúm við próftöku. Einnig komu nokkur vandamál upp með hljóðskrár. Í flestum tilvikum gátu starfsmenn Menntamálastofnunar leyst úr þessum vandamálum í samvinnu við starfsfólk skólanna.
Hvernig á að lesa úr samræmdum könnunarprófum?
Niðurstöður samræmdra könnunarprófa eru birtar með hæfnieinkunn og raðeinkunn. Auk þessara einkunna koma fram umsagnir um framfarir í íslensku og stærðfræði frá 7. bekk hjá þeim nemendum sem þreyttu prófin í bæði 7. og 9. eða 10. bekk.
Í raðeinkunn er nemendum raðað eftir frammistöðu frá einum upp í 99. Þannig að 1 er lakasta frammistaðan en 99 sú besta. Þannig sýnir raðeinkunn stöðu nemandans miðað við árganginn í heild. Nemandi sem fær raðeinkunnina 60 stendur sig betur en 59% nemenda á landinu öllu. Raðeinkunn er gefin fyrir hverja námsgrein og þá undirþætti hennar sem prófaðir eru.
Hæfnieinkunn er gefin í bókstöfum, A, B+, B, C+, C og D og sýnir að hvaða marki nemendur hafa náð matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Nemandi með A hefur framúrskarandi hæfni og stendur mjög vel í námi með hliðsjón af matsviðmiðum námsgreinar eða námssviðs. Nemandi með B hefur góða hæfni og stendur vel í námi. Nemandi með C hefur nokkra hæfni og frammistaða hans í námi er sæmileg. Einkunnin D lýsir hæfni sem ekki nær viðmiðum sem lýst er í C. Ekki eru skilgreind sjálfstæð matsviðmið fyrir einkunnir C+ og B+. Nemendur sem fá einkunnina B+ og einkunnina C+ eru nálægt því að fá A eða B.
Á þessu kynningarmyndbandi má finna nánari lýsingu á samræmdum könnunarprófum og einkunnagjöfinni.
Hér að neðan er dæmi um einkunnaspjald nemenda.
skrifað 19. APR. 2017.