Menntamálastofnun hefur útbúið læsisplakat sem inniheldur góð og handhæg ráð sem hægt er að grípa í til að styðja við málþroska barna. Þau eru ætluð bæði fyrir kennara og foreldra.
Leikskólastigið er mikilvægt í læsisferlinu því þar er lagður mikilvægur grunnur í undirstöðuþáttum læsis. Þar vegur málþroskinn þyngst og því nauðsynlegt að hlúa vel að honum á þeim mikla grósku- og framfaratíma sem leikskólaaldurinn er.
Til að stuðla að því að allir séu meðvitaðir um hvernig þeir geta stutt sem best við málþroska og læsisnám barna sinna voru læsisráðin send í alla leikskóla.