Menntamálastofnun hefur fengið ábendingar um kynjamismunun í stærðfræðibókinni Skali 3A sem er ætluð nemendum á unglingastigi.
Þar eru tvö dæmi um laun tveggja karlmanna annars vegar og tveggja kvenna hins vegar. Í dæmunum eru laun karlmannanna töluvert hærri en laun kvennanna. Um er að ræða þýðingu á námsefni úr norsku og því miður láðist ritstjórn að laga þetta tiltekna dæmi.
Því verður breytt í rafrænu útgáfunni á næstu dögum og í prentuðu útgáfunni þegar bókin verður prentuð á ný.
Mikil áhersla er lögð á að jafnvægi sé á milli kynja í því efni sem Menntamálastofnun gefur út og má nefna að höfundar og ritstjórar vinna samkvæmt gátlista sem stofnunin gefur út. Þar er meðal annars fjallað um kynjahlutföll.
Ritstjórar Menntamálastofnunar leggja mikinn metnað í að gera námsefni sem best úr garði og því er öllum uppbyggjandi ábendingum tekið fagnandi.