Úrslit í vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2017, liggja nú fyrir. Menntamálastofnun efnir til keppninnar ár hvert í tilefni af degi íslenskrar tungu, í samstarfi við KrakkaRúv. Í keppninni spreyttu nemendur sig á því að botna fyrriparta eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson.
Að þessu sinni bárust okkur samtals 474 botnar frá 33 skólum víðs vegar að af landinu. Frá yngsta stigi bárust 211 botnar, 162 frá miðstigi og 101 frá unglingastigi. Einum nemanda á hverju stigi voru veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjal fyrir besta vísubotninn. Á mið- og unglingastigi var gerð krafa um ljóðstafi og rím en á yngsta stigi var fyrst og fremst hugað að rími.
Sagt var frá úrslitunum í Krakkarfréttum þann 31. janúar.
Á yngsta stigi var Pétur Harðarson hlutskarpastur en hann er nemandi í 4. bekk Hofsstaðaskóla í Garðabær. Vísubotn hans er hér feitletraður:
Skrýtinn jólasvein ég sá
setja gott í skóinn.
Hjá honum köttur lítill lá
og sleikti af sér snjóinn.
Á miðstigi hlaut Þuríður Rósa Bjarkadóttir Yershova, nemandi í 5. bekk Melaskóla í Reykjavík, verðlaun fyrir að botna bestu vísuna í sínum aldursflokki:
Stöndum við með bros á brá
bráðum koma jólin.
Kertin lýsa okkur á
uns á ný skín sólin.
Á unglingastigi fékk Guðný Salvör Hannesdóttir, nemendi í 9. bekk Laugalandsskóla í Holtum, verðlaun fyrir sinn vísubotn:
Út um gluggann oft ég sé
ýmislegt sem gleður.
Glitrandi stjörnur, grenitré
brátt gamla árið kveður.
Menntamálastofnun óskar vinningshöfum til hamingju með frábæran árangur og þakkar grunnskólanemum og kennurum fyrir þátttökuna. Það er von okkar að vísnasamkeppnin verði nemendum og kennurum hvatning til að halda kveðskaparlistinni á lofti. Það var hægara sagt en gert fyrir dómnefnd að velja vinningshafa því margir vel ortir botnar bárust.
Hér birtum við nokkra vísubotna sem voru meðal þeirra bestu.