1. Forsíða
  2. Vel heppnað örnámskeið í skapandi skrifum

Vel heppnað örnámskeið í skapandi skrifum

Þann 23. maí síðastliðinn var haldið örnámskeið í skapandi skrifum þar sem áhersla var lögð á leik og sköpun með tungumálið á forsendum nemenda. Menntamálastofnun, auk fjölmargra samstarfsaðila, stóð að námskeiðinu sem haldið var í Laugarlækjarskóla og mættu um 60 kennarar og aðrir áhugasamir um ritun í skólum. Markmiðið var að kynna fyrir kennurum þann mátt sem felst í þeirra eigin sköpunarmætti og benda á leiðir sem færar eru í starfi með nemendum.

Námskeiðið var í höndum Davíðs Stefánssonar, rithöfundar og og Karenar Rutar Gísladóttur, lektors á Menntavísindasviði. Í ávarpi Karenar Rutar sagði hún að það krefðist hugrekkis og þors að gefa skapandi skrifum rými í kennslustund. Fyrsta skrefið í þá átt sé að kennarar gefi sér tækifæri til að upplifa sjálfir áhrif skapandi skrifa.

Davíð tók í sama streng en sagðist vera þess fullviss um að allir geti skrifað og gert stórkostlega hluti. Hann sagði að unglingar þyrftu að heyra þetta sem oftast. Þeir heyri umræðuna um læsi og enskuáhrif og halda að þeir séu ekki nóg góðir í íslensku og geti því ekki skapað. Hann talaði um þá byltingarbylgju sem hann finni fyrir varðandi skapandi skrif og lykillinn að því að sveifla þeirri bylgju inn í skólakerfið sé að kenna kennurum. „Það er ekki hægt að kenna einhverjum að skrifa en það sem við gerum hér er að leiða fram hugmyndir, kveikjur, til að fá ykkur til að vera frjáls, dansa, leika ykkur og bulla.“

Eftir nokkrar upphitunaræfingar var þátttakendum skipt í hópa og unnin hópverkefni. Eitt þeirra var Smámunasafnstjórar þar sem hópurinn fór í 15 mínútna göngutúr með plastpoka, safnaði áhugaverðum hlutum og bjó til sögu þessara hversdagslegu hluta. Þátttakendur áttu svo að bulla og spinna í kringum hlutina og spurningar frá öðrum.

Annað verkefnið var Nýyrðanefnd ríkisins árið 2050 sem fékk það hlutverk að búa til ný orð yfir unglinga og komu fram um 50 skemmtileg ný orð sem þau kynntu. 

Þá var verkefnið Ég man og svo bulla ég en þar áttu þátttakendur að rifja upp minningar með setningu sem byrjar á „Ég man“. Að því loknu áttu þau að segja frá bullminningum og var útkoman kostuleg.

Námskeiðið í Laugarlækjarskóla var fyrsti hluti af starfsþróunarverkefni í ritunarkennslu fyrir áhugasama kennara um land allt. Verkefnið er unnið í samstarfi við fjölmarga aðila á sviði bókmennta og menningar. Haustið 2018 verður þremur skólum boðin þátttaka í þriggja vikna tilraunanámskeiði og árið 2019 er síðan ætlunin að bjóða öðrum skólum til leiks.

Námskeiðið var tekið upp og verður upptakan gerð aðgengileg á vef Menntamálastofnunar innan skamms.

          

          

          

skrifað 28. MAí. 2018.