Markmið
Íslenski hæfniramminn telur sjö hæfniþrep. Hækkandi þrep endurspegla auknar hæfnikröfur sem eru skilgreindar í hæfniviðmiðum fyrir þekkingu, leikni og hæfni. Tveimur þrepum 5 og 6, skipt upp í 5.1 og 5.2 annars vegar, og 6.1 og 6.2 hins vegar í því skyni að draga fram ákveðinn eðlismun á námslokum innan þessara þrepa, t.d. kröfu um reynslu af rannsóknum.
Megintilgangur rammans er tvíþættur; annars vegar að auka gagnsæi innan menntakerfis viðkomandi lands, og hins vegar að auka gagnsæi milli evrópskra menntakerfa. Hann getur einnig nýst almenningi sem tenging milli formlegs og óformlegs náms, hafi slíkt nám verið sett á þrep. Miðað er við að hægt sé að tengja allt nám sem hefur skilgreind námslok, óháð því hvar það fer fram, við hæfniþrep rammans. Ramminn eykur þannig gagnsæi og varpar ljósi á þá hæfni sem einstaklingur býr yfir að loknu námi á tilteknu þrepi. Upplýsingar um hæfni má t.a.m. nýta í ferilskrá, við starfsþróun og í umsókn um nám.
Íslenski hæfniramminn á ensku
Íslensku þrepin
Nám í framhaldsfræðslu, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla skal skipuleggja samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum. Þau hæfniþrep sem þar birtast eru tengd við rammann, þ.a. hæfniþrep aðalnámskrár grunnskóla tengist fyrsta hæfniþrepi rammans, fjögur hæfniþrep aðalnámskrár framhaldsskóla tengjast fyrstu fjórum hæfniþrepum rammans, og þrep 1.1, 1.2, 2.1, 2.2, og 3, sem birt eru í viðmiðum um æðri menntun og prófgráður, eru tengd við efstu þrjú hæfniþrep rammans sem eru þar númeruð 5.1, 5.2, 6.1, 6.2 og 7.
Saga íslenska hæfnirammans
Mennta- og menningarmálaráðuneytið skilaði árið 2014 skýrslu til Framkvæmdastjórnar ESB sem lýsti fyrstu drögum að íslenskum hæfniramma og hvernig hann tengdist þeim evrópska. Frá 2014 hafa hagsmunaaðilar unnið að þróun rammans og þann 12. október 2016 var samþykkt ný útfærsla í kjölfar náins samstarfs við alla hagsmunaðila í menntun á Íslandi og atvinnulífið með sameiginlegri yfirlýsingu.
Undir yfirlýsinguna skrifuðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Kvasir, Leikn, Landsamtök íslenskra stúdenta og Samband íslenskra framhaldskólanema. Þar er stutt lýsing á hverju þrepi. Einnig hefur starfshópur unnið að ítarlegri útfærslu á hæfniviðmiðum fyrir þrep 1 til 4. Sambærileg vinna við þrep 5 til 7 mun fara fram. Að því loknu verður skrifuð ný skýrsla um allan rammann, bæði á íslensku og ensku.
Hvernig er hægt að nota hæfnirammann?
Íslenski hæfniramminn er ný nálgun í menntun. Í stað þess að horfa á tímann sem varið er í nám er horft til þeirrar hæfni sem einstaklingur býr yfir við námslok, óháð því hvar námið hefur farið fram. Við gerð nýrra námsbrautalýsinga setja fræðsluaðilar þannig fram þau hæfniviðmið sem gert er ráð fyrir að nemendur nái. Sambærilegt nám í t.d. framhaldsfræðslu (t.d. nám á vinnustað) og í skóla er því sett á sama þrep. Nemendur eiga því auðvelt með að sjá hvar þeir eru staddir og hverju þeir þurfa að ljúka til þess að komast á næsta þrep. Þó lokið sé námi á einu þrepi er vegurinn í allt nám á næsta þrepi hins vegar ekki alltaf opinn. Menntastofnanir geta bæði sett fram kröfur um sérhæfingu og/eða krafist inntökuprófa.
Alþjóðlega viðurkennd námslok
Námslok sem ekki eiga uppruna sinn á Íslandi hafa enn ekki verið sett á þrep í Íslenska hæfnirammanum þó þau séu almennt viðurkennd í íslensku atvinnulífi. Dæmi um slík námslok eru Microsoft Certified Solutions Associate (MSCA), ýmis CISCO námslok, námslok í markþjálfun og verkefnisstjórnun og fleira. Gert er ráð fyrir að alþjóðleg námslok verði smám saman settar á þrep og verður þá stuðst við hvernig slíkt hefur verið gert í öðrum löndum.