Menntamálastofnun hefur gert samning við Davíð Oddgeirsson kvikmyndagerðarmann um framleiðslu á örmyndböndum fyrir foreldra.
Myndböndin verða í formi viðtala og eru viðmælendur börn, unglingar, foreldrar, leik- og grunnskólakennarar, reynsluboltar, hversdagshetjur og aðrir sérfræðingar í læsisuppeldi.
Markmið Menntamálastofnunar með þeim er að hvetja og styðja við foreldra þegar kemur að læsisuppeldi barna þeirra. Gert er ráð fyrir að þau verði tilbúin til notkunar í nóvember.
Myndböndunum verður deilt á vef- og samfélagsmiðlum og einnig verður tengill að efninu sendur í leik- og grunnskóla þannig að hægt verði að nýta efnið t.d. í foreldraviðtölum eða á foreldrafundum.
Verkefnið er liður í Þjóðarsáttmála um læsi.