Um er að ræða heildstætt þemaverkefni sem kallast Myndamáttur og er sjónræn og þátttökumiðuð kennsluaðferð. Efnið byggist á kennslu- og rannsóknaraðferð sem ber enska heitið photovoice og hefur það markmið að efla raddir ólíkra samfélagshópa með aðstoð ljósmynda. Aðferðin hefur reynst vel til að mæta síauknum menningarlegum margbreytileika í skólaumhverfinu enda er markmið þessa efnis að styðja ungt fólk að tengjast samfélagi sínu og samferðafólki á grunni ólíkrar reynslu og fjölbreyttra upplifana.
Unnið er með fjölbreytt og skapandi ljósmyndaverkefni þar sem áhersla er lögð á að efla gagnrýna hugsun með mynd- og rýmislæsi nemenda. Í því felst að skoða hvernig bæði myndrænt og eiginlegt nærumhverfi nemenda getur haft mismunandi áhrif á einstaklinga og hópa.
Hægt er að vinna verkefnin í ólíkum fögum, þvert á námsgreinar og aldursstig og út frá mismunandi áhersluatriðum. Rauði þráðurinn er að styrkja rödd ungs fólks og skapa þeim vettvang til að miðla ólíkri reynslu og upplifunum. Þannig stuðlar verkefnið að lýðræðislegu og skapandi skólastarfi þar sem fjölbreyttur bakgrunnur nemenda fær að njóta sín og þau upplifa að þau tilheyri samfélaginu.