Hér að neðan getur að líta helstu tölur varðandi innritun í framhaldsskóla á vorönn 2022. Greint hefur verið á milli helstu breyta sem skipta máli varðandi innritun, þ.e. skiptingu milli mismunandi námsleiða (almennt bóknám, starfsnám og undirbúningsnám) og aldurs. Einnig hafa innritunartölur verið greindar eftir kynjum og skiptingu milli greina.
Nöfn anna geta verið mismunandi eftir skólum (sumir skólar nota heiti eins og v2022 eða 20221). Heitin hafa því verið samræmd og til þess að hægt sé að vinna betur með annarheitin bera þær einungis númer. Vorönn 2019 heitir því 20191 og haustönn sama ár heitir 20192.
Upplýsingarnar eru fengnar úr Innu þann 16.02 2022.
Umsóknum er gjarnan skipt niður eftir stöðu þeirra. Þær geta tekið þrennskonar stöðu; Samþykkt, hafnað eða önnur lok. Til annarra loka getur talist að viðkomandi hafi fengið samþykkta umsókn en ákveðið að þiggja ekki skólavist, að umsækjandi hafi hætt við umsókn, að umsóknin sé í bið, eða að umsóknin sé annað hvort ógild eða óstaðfest. Stöðuna hafnað fá umsóknir þeirra nemenda sem fá hvergi skólavist í framhaldsskólakerfinu.
Hafa ber í huga að nokkrir nemendur eru skráðir á námsbrautir sem enn hafa ekki verið flokkaðar í námsleiðir. Einnig ber við að kyn nemenda sé ekki skráð. Þetta leiðir til þess að samtölum ber ekki fullkomlega saman í öllum tilvikum þar sem viðkomandi nemendur eru ekki alltaf hafðir með í útreikningum, s.s. þar sem birtar eru tölur yfir námsleiðir og kynjaskiptingu. Þar sem um lítinn hóp er að ræða hefur þetta hverfandi áhrif á niðurstöður.