Frestur til þess að sækja um í framhaldsskóla rann úr þann 10. júní síðastliðinn. Þess vegna vill Menntamálastofnun benda á nokkur atriði varðandi innritunarferlið:
Lokadagsetning innritunar er þann 26. júní 2022. Ef vinnslu umsókna verður lokið fyrir þann tíma verða niðurstöður birtar fyrr og verður það tilkynnt sérstaklega á heimasíðu, Facebook-síðu og Instagram Menntamálastofnunar og Facebook-síðunni Ráðgjöf vegna innritunar í framhaldsskóla. Þann dag opnast fyrir niðurstöður og nýnemar (þeir sem eru að innritast beint úr grunnskóla) fá að vita í hvaða skóla þeir hafa hlotið skólavist og verður staðan sýnileg aftan við skólaheiti í umsókninni á Menntagátt. Fram að þeim tíma stendur ekkert um stöðu umsóknar aftan við skólaheiti.
Umsækjendur fá ekki tilkynningu með bréfi eða tölvupósti með niðurstöðu heldur er farið inn í innritunarvefinn menntagatt.is. Einnig fær fólk greiðsluseðil í heimabanka eldri forsjáraðila.
Þegar niðurstöður eru skoðaðar inni í umsóknarkerfinu getur umsóknin haft nokkrar stöður:
- Samþykkt. Stendur við þann skóla sem umsækjandi hefur hlotið skólavist í.
- Samþykkt í öðrum skóla. Viðkomandi hefur sótt um í skólanum en hlotið skólavist annars staðar.
- Hafnað. Umsækjandi fær ekki skólavist í viðkomandi skóla.
- Hafnað án varaskóla. Umsækjandi hefur ekki hlotið skólavist í þeim skólum sem hann setti í fyrsta eða annað val. Þegar um umsóknir nýnema er að ræða hefur Menntamálastofnun séð til þess að viðkomandi fái tilboð um skólavist í þriðja skóla og eru þær umsóknir því ekki með stöðuna hafnað.
Að gefnu tilefni vill Menntamálastofnun benda á að kerfið hefur í einhverjum tilfellum ekki skráð rétt netföng forsjáraðila. Þetta á ekki að koma að sök þar sem niðurstöður innritunar eru ekki tilkynntar í gegnum tölvupóst (sjá lið 2). Forsjáraðilum er bent á að fara inn í Innu eftir að skólastarf hefst næsta haust og gæta að skráningu netfanga. Skrifstofur skólanna geta einnig aðstoðað með þetta.
Hægt er að ná á sérfræðinga Menntamálastofnunar í gegnum netfangið [email protected]. Einnig er hægt að notfæra sér Facebook-síður stofnunarinnar.