Sexan er stuttmyndasamkeppni sem er ætlað að fræða ungt fólk um mörk og samþykki en einnig um tilurð, birtingarmyndir og afleiðingar stafræns ofbeldis.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlanefndar um nektarmyndir á meðal grunnskólabarna kemur fram að 51% stúlkna og 22% stráka hafa verið beðin um nektarmynd.
Fyrirkomulag Sexunnar er einfalt. Þátttakendur fá fræðslu og tækifæri til að búa til og skila inn tilbúinni stuttmynd (hámark 3 mínútur) á tímabilinu 10.-21. janúar 2023.
Viðfangsefni keppninnar eru fjórar birtingarmyndir stafræns ofbeldis: samþykki, nektarmynd, tæling eða slagsmál ungmenna.
Þátttakendur hafa frjálsar hendur með handritagerð, framkvæmd og eftirvinnslu. Hver skóli má senda að hámarki þrjár myndir í keppnina en dómnefnd skipuð fulltrúum ungmennaráðs, RÚV, Menntamálastofnunar og kvikmyndagerðar velur svo þrjár bestu stuttmyndirnar sem verða sýndar á vef RÚV í viku sex, kynfræðsluvikunni 6.-10. febrúar nk.
Skólar eru hvattir eindregið til að taka þátt og festa þannig viðburðinn í sessi sem árlegan, skapandi vettvang til að takast á við stafrænt ofbeldi á meðal ungmenna.