1. Forsíða
  2. Áskorun og ævintýri - sjálfboðastarf í grænum skóla

Áskorun og ævintýri - sjálfboðastarf í grænum skóla

Fulltrúar verkefnisins Áskorun og ævintýri, sjálfboðastarf í grænum skóla taka við Foreldraverðlaunum Heimilis og skóla. Mynd: MOTIV 

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru afhent í 28. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu, fimmtudaginn 30. maí 2023. Leikskólinn Tjarnarsel í Reykjanesbæ hlaut Foreldraverðlaunin að þessu sinni fyrir verkefnið „Áskorun og ævintýri – sjálfboðastarf í grænum skóla“. Einnig voru veitt hvatningarverðlaun til fjölskyldna og annarra í skólasamfélagi Laugarnesskóla fyrir verkefnið „Upprætum ofbeldi og fordóma“. Stefán Már Gunnlaugsson, formaður foreldrafélags Hraunvallaskóla í Hafnarfirði var valinn Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2023, en þau verðlaun hlýtur einstaklingur sem hefur lagt sérlega mikið af mörkum í þágu nemenda og foreldra.

Tekið var við tilnefningum frá almenningi en sérstök dómnefnd fór yfir allar tilnefningar líkt og vant er og valdi verðlaunahafa. Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Menntamálastofnunar ávarpaði samkomuna og afhenti verðlaunin að þessu sinni.

Um verðlaunahafa: 

Verðlaunahafi Foreldraverðlaunanna 2023 – Áskorun og ævintýri, sjálfboðastarf í grænum skóla

Undanfarin ár hefur mikil og öflug vinna farið fram í að umbylta flötu og litlausu útisvæði leikskólans Tjarnarsels í Reykjanesbæ í náttúrulegan garð. Hefur sú vinna nær eingöngu farið fram í sjálfboðavinnu. Verkefnið ber yfirskriftina „Áskorun og ævintýri“ og hefur verið í stöðugri þróun frá árinu 2013. Eftir umbyltingu býður nú garðurinn upp á endalausa möguleika til náttúrufræðikennslu, sköpunar og hreyfingar.

Í byrjun júní ár hvert mæta glöð börn og systkini þeirra, galvaskir foreldrar, duglegir afar og ömmur, fyrrverandi nemendur, kennarar og fjölskyldur þeirra í leikskólann með uppbrettar ermar, í vinnugöllum með gleðina að vopni og til í hvað sem er. Sérstök ánægja hefur verið með aukna þátttöku fjölskyldna barna af erlendu bergi síðustu árin og hafa erlendir foreldrar sagt að loksins séu þau hluti af samfélagi. Fyrirtæki bæjarins hafa einnig stutt við starfið með því að lána verkfæri, gefa efnivið og jafnvel vinnutíma starfsmanna. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar Reykjanesbæjar hafa verið verkefninu einstaklega velviljaðir öll þessi ár og tilbúnir að aðstoða. Samtakamátturinn og krafturinn í mannauðinum er ómetanlegur. Í júní 2022 mættu 160 manns á öllum aldri með bros á vör.

Hvatningarverðlaun 2023 – Upprætum ofbeldi og fordóma

Upprætum ofbeldi og fordóma er sameiginlegt verkefni fjölskyldna og skólasamfélags Laugarnesskóla til að uppræta fordóma og tala fyrir víðsýnu samfélagi þar sem öll mega vera eins og þau eru. Stjórn foreldrafélags Laugarnesskóla hefur lagt lóð sín á vogaskálarnar í þessu verkefni, verið öflug rödd umburðarlyndis og virðingar í skólasamfélaginu, verið óþreytandi að hrósa því sem skólinn gerir vel en þó ekki hikað við að benda á hvað megi betur fara. Foreldrafélagið hefur staðið fyrir fræðslufundum fyrir foreldra og forsjáraðila nemenda til að sporna gegn kynþáttafordómum, ofbeldi og skaðlegri orðræðu. Skólasamfélög þurfa að stíga í takt og það er til eftirbreytni þegar foreldrafélög taka frumkvæði og eru leiðandi í umbótaaðgerðum í skólasamfélaginu.

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2023 – Stefán Már Gunnlaugsson

Stefán Már Gunnlaugsson hefur unnið styðjandi og óeigingjarnt starf til eflingar á samstarfi heimila og skóla. Hann hefur um nokkurra ára skeið verið formaður foreldrafélags Hraunvallaskóla í Hafnarfirði og hefur síðan skólaárið 2015/2016 verið öflugur talsmaður jákvæðs foreldrasamstarfs, náð eyrum foreldra og nýtt öll tækifæri til að tala af jákvæðni og hlýju um mikilvægi þess að skólinn og heimilin eigi öruggan samstarfsvettvang. Hann hefur einnig sýnt skólanum mikinn stuðning og verið jákvæður tengiliður þegar reynt hefur á. Stefán hefur með vinnu sinni náð að virkja foreldra til þátttöku, stuðlað að jákvæðu viðhorfi og auknu samtali milli heimilis og skóla. Stefán hefur einnig átt farsælt samstarf við stjórnendur og starfsfólk skólans og átt frumkvæði að setja skýran og árangursríkan ramma um samstarfið. Foreldrafélagið undir stjórn Stefáns hefur verið ómetanlegur stuðningur og starfið eflst mikið undir hans forystu.

Menntamálastofnun óskar vinningshöfum innilega til hamingju með verðlaunin. 

          

​Fulltrúar skólasamfélags Laugarnesskóla taka við Hvatningarverðlaunum Heimilis og skóla fyrir verkefnið Upprætum ofbeldi og fordóma. Mynd: MOTIV 

Stefán Már Gunnlaugsson, formaður foreldrafélags Hraunvallaskóla í Hafnarfirði var valinn Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2023, en þau verðlaun hlýtur einstaklingur sem hefur lagt sérlega mikið af mörkum í þágu nemenda og foreldra. Mynd: MOTIV 

 

skrifað 31. MAí. 2023.