RISAstórar smáSÖGUR, sem innihalda smásögur eftir 20 börn á aldrinum 6 – 12 ára, eru nú komnar út í sjötta skiptið hjá Menntamálstofnun. Útgáfa RISAstórra smáSAGNA er hluti af samstarfsverkefninu Sögur en síðastliðinn laugardag hlutu höfundar sérstaka viðurkenningu fyrir smásögur sínar í beinni útsendingu á barnaverðlaunahátíð RÚV sem sjónvarpað var frá Silfurbergi í Hörpu.
Tvær sögur hlutu Svaninn sem eru sérstök verðlaun sem veitt eru fyrir sögur sem þykja skara fram úr. Verðlaunahafinn í flokki 6-9 ára var Jakob Máni Danielsson Kolár fyrir söguna Máni fer til tunglsins en í flokki 10-12 ára var það Tobias Auffenberg sem hlaut verðlaun fyrir söguna sína Baunin undir prinsessunni. Sögurnar má finna hér og eru öll börn á aldrinum 6-12 hvött til að taka þátt í keppninni á nýju skólaári!