Í tilefni af alþjóðlegum degi læsis (UNESCO) vill Menntamálastofnun minna á námsefnið Arfinn sem kennir nemendum að beita aðferðum gagnvirks lestrar í glímu sinni við texta.
Efnið samanstendur af skáldsögu sem Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur skrifaði sérstaklega fyrir verkefnið og nákvæmum leiðarvísi fyrir kennara. Leiðarvísirinn leiðir kennara og nemendur, skref fyrir skref, í gegnum söguþráðinn en á sama tíma læra nemendur að greina aðalatriði í texta, að draga ályktanir, að tileinka sér nýjan orðaforða og svo mætti lengi telja.
Efnið er ætlað nemendum á miðstigi og ættu allir kennarar, sem vilja leggja áherslu á að nemendur öðlist góðan lesskilning, að kynna sér efnið.