1. Forsíða
  2. Ólafur Schram tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna

Ólafur Schram tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna

Fyrir skömmu voru tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna kynntar. Það er okkur mikil ánægja að greina frá því að þar á meðal er Ólafur Schram, tónmenntakennari í Sjálandsskóla og námsefnishöfundur, en hann er tilnefndur fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu, námsefnisgerð og þróunarstarf.

Auk kennslu hefur Ólafur komið að endurskoðun aðalnámskrár og samið námsefni í tónlist sem Menntamálastofnun gefur út. Efnið sem hann samdi fyrir Menntamálastofnun er Tónlist og Afríka, Tónlist og líkaminn og Tónlist og tíminn.

Ólafur lýsir megináherslum sínum í kennslu meðal annars með þessum orðum: „Mitt helsta markmið í tónmenntakennslu er að skapa aðstæður í tónmenntastofunni svo nemendur með mismikla færni geti stigið inn í heim tónlistarinnar og upplifað galdur hennar í samspili, söng og sköpun.“ Þá leggur hann mikla áherslu á samþættingu tónmenntar við aðrar greinar, en þverfaglegt starf er eitt af einkennum Sjálandsskóla sem hann kennir við nú. Um þetta segir hann: „Með samþættingu fær tónlistin aukna merkingu í huga nemandans á sama tíma og iðkun tónlistar gefur nemendum tækifæri á að tengjast viðfangsefnum með upplifun sem aðrar námsgreinar eiga erfiðara með að veita.“  

Meðal þess sem kom fram í umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefninguna er:

Ólafur er einstakur fagmaður með brennandi áhuga á starfi sínu sem á auðvelt með að kveikja áhuga hjá nemendum sínum. Hjá Ólafi fá nemendur að kynnast tónlist á fjölbreyttan hátt, fá að skapa tónlist, læra á hljóðfæri og læra sögu tónlistar. Textar eru krufðir og textar eru samdir. Tungumálin eru skoðuð og jafnvel búið til bullmál. Tónlist er sett í samhengi við sögu, menningu og tíðaranda. Ævintýri verða til. 

Við óskum Ólafi innilega til hamingju með tilnefninguna og hlökkum til frekara samstarfs.

        

skrifað 16. OKT. 2023.