1. Forsíða
  2. 6. Leiðbeiningar við yfirsetu

6. Leiðbeiningar við yfirsetu

6.1 Rissblöð

Rissblöð (A4 eða A5) eru heimil í stærðfræði en skóli ber ábyrgð á að þeim sé eytt með tryggilegum hætti að loknu prófi.

6.2 Tilkynningar til nemenda meðan á próftöku stendur

Vakni spurningar á prófdegi um hvort víkja þurfi frá reglum um fyrirlögn prófanna skal ávallt hafa samband við Menntamálastofnun og fá samþykki fyrir því.

Óheimilt er að lesa upp tilkynningar eða gera athugasemdir varðandi prófin meðan á prófi stendur nema að beiðni eða með samþykki Menntamálastofnunar. Tilkynna skal nemendum að um hálftími sé eftir af prófi og þeim bent á að hægt sé að fylgjast með niðurtalningu á skjánum. Nemendur eiga ALLS EKKI að fá hjálp við að leysa verkefni í könnunarprófunum eða fá vísbendingar um hvert rétt svar sé. 

6.3 Spurningar nemenda

Ekki má undir nokkrum kringumstæðum gefa nemendum vísbendingar um rétt svar eða hjálpa þeim að leysa verkefnin. Besta leiðin til að svara spurningum nemenda sem óska eftir aðstoð er til dæmis:      
 „Ég má ekki hjálpa þér við að leysa þetta verkefni/dæmi.”             
 „Gerðu eins vel og þú getur.”            
 „Merktu við svarið sem þú telur að sé réttast.“ 

6.4 Salernisferðir

Nemendur eiga að sitja í sætum sínum meðan á próftöku stendur. Þurfi nemendur að fara á salerni skal sjá til þess að þeir geti ekki átt samskipti við aðra nemendur. 

6.5 Að loknu prófi

Þegar nemandi lýkur prófi þarf hann að skrá sig út úr prófakerfinu með því að ýta á þar til gerðan hnapp til að loka prófinu. Það er lagt í hendur skólastjóra að ákveða hvort nemendur sitji út próftímann eða ekki. Menntamálastofnun mælir með að svo sé gert. Ef talið er að aukaverkefna eða lesefnis sé þörf til að nemendur hafi eitthvað að gera að loknu prófi, þarf að huga að því í tíma. Eina skilyrðið er að verkefni tengist EKKI þeirri námsgrein sem prófað er í hverju sinni. Nemandi verður að hafa skráð sig úr prófi áður en hann fær eitthvað annað að fást við.  

6.6 Leiðbeiningar lesnar í upphafi prófs

Þessar kynningar les kennari í upphafi hverrar próflotu. Próflota hefst á að nemandi skráir sig inn í prófakerfið gegnum læstan vafra. Próftími hefst að kynningu lokinni. 

Leiðbeiningar lesnar í upphafi íslenskuprófs í 9. bekk:

NAFNAKALL.

Nú hefst samræmt könnunarpróf í íslensku. Blað með prófkóðanum ykkar er við tölvuna. Gætið þess að ykkar nöfn séu á blaðinu.

Í prófinu skiptast á verkefni í lesskilningi og málnotkun. Þegar þið hafið lokið hverju verkefni veljið þið næsta. Efst á skjánum getið þið fylgst með hvað þið eruð búin með og hvað þið eigið eftir. Mikilvægt er að nýta tímann vel. Gangi ykkur vel! Þið megið byrja.

Leiðbeiningar lesnar í upphafi stærðfræðiprófs í 9. bekk:

NAFNAKALL.

Nú hefst samræmt könnunarpróf í stærðfræði. Blað með prófkóðanum ykkar er við tölvuna. Gætið þess að ykkar nöfn séu á blaðinu. Þið getið notað blaðið sem rissblað.

Efst á skjánum getið þið fylgst með hvað þið eruð búin með og hvað þið eigið eftir. Þar er líka hægt að opna reiknivél. Mikilvægt er að nýta tímann vel. Gangi ykkur vel! Þið megið byrja.

Leiðbeiningar lesnar í upphafi enskuprófs í 9. bekk:

NAFNAKALL.

Nú hefst samræmt könnunarpróf í ensku. Blað með prófkóðanum ykkar er við tölvuna. Gætið þess að ykkar nöfn séu á blaðinu.

Í prófinu skiptast á verkefni í lesskilningi og málnotkun. Þegar þið hafið lokið hverju verkefni veljið þið næsta. Efst á skjánum getið þið fylgst með hvað þið eruð búin með og hvað þið eigið eftir. Mikilvægt er að nýta tímann vel. Gangi ykkur vel! Þið megið byrja.

<<Fyrri kafli

Næsti kafli>>

Efnisyfirlit