1. Home
  2. Fræðslugáttin vex og dafnar | Rafrænt námsefni allt á einum stað!

Fræðslugáttin vex og dafnar | Rafrænt námsefni allt á einum stað!

Umferð um Fræðslugáttina er framar björtustu vonum en þar hefur námsefni Menntamálastofnunar, sem til er á rafrænu formi, verið safnað saman á einn stað. Vakin er athygli á að nú hefur verið opnað fyrir tímabundinn rafrænan aðgang að allskonar námsefni sem áður var einungis aðgengilegt á prentuðu formi.

Framtíð Fræðslugáttar er óráðin en eitt er víst að hún hefur alla burði til að vaxa og dafna. Allar hugmyndir að námsefni sem vert væri að vista í Fræðslugáttinni eru vel þegnar og óskast sendar á [email protected].

Hér getur þú skráð þig á póstlista námsefnis til að fá fréttir af námsefni Menntamálastofnunar.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Nýjasta rafræna námsefnið á Fræðslugátt

Námsefni í íslensku

Sígildar sögur | Unglingastig
Í bókaflokknum eru tíu bækur en nú hafa fjórar þeirra verið færðar í rafrænan búning. Þær eru:  Innrásin frá Mars, Fýkur yfir hæðir, Drakúla og Baskerville-hundurinn.

Listin að lesa og skrifa | Yngsta stig
Á vefnum má nálgast 10 verkefni til útprentunar, stafakannanir og yfirlit yfir allar rafbækur sem komnar eru út í lestrarbókaflokknum. Námsefnið byggist fyrst og fremst á hljóðaaðferð.

Smábókaflokkurinn | Yngsta stig
Nú er bækurnar í smábókaflokknum komnar á rafrænt form. Þar er reynt að höfða til ólíkra áhugasviða barnanna með innihaldsríkum texta og ríkulegum myndskreytingum þrátt fyrir einfalda framsetningu.

Námsefni í stærðfræði

Stærðfræði 8+, 9+ og 10+ | Unglingastig
Bækurnar eru nú tímabundið aðgengilegar á rafrænu formi en í þeim er áhersla lögð á að þjálfa undirstöðufærni í stærðfræði með einföldum texta og verkefnum.

Námsefni í ensku

Spotlight | Unglingastig
Nú hefur verið opnaður tímabundinn aðgangur að Spotlight 8-10 nemenda- og verkefnabókum

Portfolio | Yngsta- og miðstig
Námsefnið Portfolio samanstendur af 28 titlum, lesheftum, vinnubókum, þemaheftum og hlustunarefni. Opnaður hefur verið tímabundinn aðgangur að hljóðefni Portfolio.

Námsefni í skólaíþróttum

Hreyfispilið | Yngsta- og miðstig
Hreyfispilið er skemmtilegt spil fyrir fólk á öllum aldri sem tilvalið er að nota til að brjóta upp daginn með og fá smá hreyfingu í leiðinni. Hreyfispilið er á pdf-formi og hægt að prenta út.

Leikgleði – 50 leikir | Yngsta stig, miðstig og unglingastig
Hugmyndabanki á rafbókarformi með 50 hugmyndum að útiverkefnum. Leikirnir eru hvatning til útiveru og skiptast í náttúruleiki, samvinnuleiki og hreystileiki.

Námsefni í verk- og listgreinum

Ég sé með teikningu | Yngsta stig, miðstig og unglingastig
Námsefninu Ég sé með teikningu er ætlað að efla nemendur í teikningu og sköpun og gera þá færari í að teikna eftir fyrirmyndum sem og eftir eigin ímyndun.

Syngjandi skóli | Yngsta stig, miðstig og unglingastig
44 lög og kvæði, allt frá Aravísum til Öxar við ána. Í rafbókinni eru nótur og textar. Námsefninu fylgir tvenns konar hljóðefni. Fyrst kemur lagið sungið með undirleik og svo er undirspilið endurtekið með laglinu. 

Námsefni í sögu

Miðaldafólk á ferð | Miðstig
Í bókinni er sagt frá ferðum fólks og nokkrum atvikum á seinni hluta miðalda, einkum á timabilinu 1000-1600. Bókinni er ætlað að víkka sjóndeildarhringinn og vekja spurningar um hlutskipti fólks á miðöldum og erindi þess við okkar tíma.

skrifað 31. MAR. 2020.