1. Home
  2. Þjónusta
  3. Undanþágur vegna lausráðinna starfsmanna til kennslustarfa

Undanþágur vegna lausráðinna starfsmanna til kennslustarfa

Undanþágur vegna ráðninga lausráðinna starfsmanna til kennslustarfa

Ef enginn kennari sækir um auglýst kennslustarf við grunn- eða framhaldsskóla þrátt fyrir endurtekna auglýsingu geta skólastjórnendur sótt um heimild til Menntamálastofnunar um að lausráða starfsmann til kennslustarfa til eins árs í senn, sem hefur þó ekki rétt til að nota starfsheitið kennari. Menntamálastofnun gefur út heimild til að lausráða starfsmann til kennslustarfa að fenginni tillögu undanþágunefndar kennara.

Umsóknum skólastjórnenda um undanþágu skal skilað rafrænt í gegnum island.is og eru einungis teknar til afgreiðslu með þeim hætti.   

Með umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn:

  • Afrit auglýsingar og upplýsingar um hvar og hvenær starfið var auglýst m.a. með hvaða hætti auglýsing var endurtekin.
  • Gögn um menntun, kennsluferil og starfsreynslu starfsmanns ásamt umsögnum um starfshæfni.
  • Ráðningartímabil
  • Rökstuðningur skólastjóra og skólanefndar ef umsækjandi án réttinda er tekinn fram yfir umsækjanda með leyfisbréf.

Til þess að sækja um undanþágur þarf að hafa rafræn skilríki.

Hlekkur á umsókn vegna grunnskóla er hér.

Hlekkur á umsókn vegna framhaldsskóla er hér.

Málsmeðferð

  • Menntamálastofnun skoðar hvort fullnægjandi gögn séu til staðar og kallar eftir frekari gögnum eftir því sem við á.
  • Þegar öll gögn hafa borist sendir stofnunin málið til undanþágunefndar kennara sem gerir tillögu að afgreiðslu umsóknar til Menntamálastofnunar.
  • Menntamálastofnun fer yfir gögn og tillögur undanþágunefndar, tekur endanlega afstöðu í málinu og tilkynnir umsækjanda.

Vakin er athygli á því að samkvæmt 7. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2019 getur málsaðili skotið ákvörðun Menntamálastofnunar til ráðherra. Málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Menntamálastofnunar.

Auglýsingar 

Í lögum er ekki að finna almenna skyldu um auglýsingar lausra starfa hjá sveitarfélögum en þó er oft kveðið á um slíka skyldu í kjarasamningum eða samþykktum sveitarstjórna. Varðandi grunnskólakennara er reglur að finna í kafla 14.1. í núgildandi kjarasamningi. Þar er gert ráð fyrir 14 daga fyrirvara að jafnaði.

Samkvæmt lögum nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla  skal auglýsa öll laus kennslu- og stjórnunarstörf í leik-, grunn- og framhaldsskólum eftir því sem við á í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og sveitarstjórnarlög og reglur settar samkvæmt þeim.

Samkvæmt reglum nr. 1000/2019 um auglýsingar á lausum störfum hjá ríkinu skal auglýsa öll störf með að lágmarki 10 daga umsóknarfresti frá birtingu auglýsingar sem ljúka skal á virkum degi. Nær sú regla því til auglýsingar kennslustarfa á framhaldsskólastigi.

Gert er ráð fyrir að auglýsingar lausra starfa séu birtar opinberlega, t.d. með auglýsingu í dagblaði sem gefið er út á landsvísu eða auglýsingu á sérstöku vefsvæði sem ætlað er fyrir laus störf hjá sveitarfélögum og ríki.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2019 þarf auglýsing að hafa verið endurtekin svo að heimilt sé að sækja um undanþágu til Menntamálastofnunar. Auglýsing telst endurtekin sé umsóknarfrestur framlengdur um a.m.k. 10 daga. 

Starfsmaður Menntamálastofnunar sem annast afgreiðslu umsókna og veitir upplýsingar um umsóknarferlið og stöðu umsókna er Stefán Snær Stefánsson, [email protected], s. 514-7500.

Undanþágunefnd kennara er þannig skipuð: Gunnhildur Harðardóttir, formaður, án tilnefningar, Bjarni Ómar Haraldsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ingileif Oddsdóttir, tilnefnd af Skólameistarafélagi Íslands, Mjöll Matthíasdóttir, tilnefnd af Kennarasambandi Íslands, Ingibjörg Karlsdóttir, tilnefnd af Kennarasambandi Íslands og Rannveig Oddsdóttir, tilnefnd af samstarfsnefnd um háskólastigið.

Tilkynning til Menntamálastofnunar um ráðningu umsækjanda sem leggur stund á nám til kennsluréttinda

Samkvæmt lögum nr. 95/2019 er skólastjórnendum í grunn- og framhaldsskólum heimilt að ráða úr hópi umsækjenda aðila sem leggur stund á nám til kennsluréttinda að fenginni staðfestingu þess efnis frá viðkomandi skóla og áætlun um námsframvindu. Slík ráðning getur náð til tveggja ára en ekki er heimilt að endurráða starfsmanninn að afloknum þeim tíma án undangenginnar auglýsingar.

Ekki þarf að sækja um undanþágu í slíkum tilvikum en skólastjórnendum ber þó að tilkynna til Menntamálastofnunar þegar ráðið er í kennslustarf á grundvelli þessarar heimildar.

Tilkynningu ber að senda á netfangið [email protected] og þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram:

Nafn og kennitala umsækjanda

Nafn skóla og þess sem sendir tilkynningu

Í hverju sérhæfing náms felst

Einingum lokið

Námsár

Áætluð námslok

Dagsetningar fyrri og seinni auglýsingar, ásamt afriti auglýsingar