EURYDICE - upplýsinganet

Eurydice er upplýsinganet Evrópusambandsins um menntamál í Evrópu en nær einnig til EFTA-ríkjanna sem taka fullan þátt í starfsemi þess samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ísland hefur verið hluti af upplýsinganetinu frá 1994.

Markmið

Meginmarkmið Eurydice er að vinna og miðla samanburðarhæfum upplýsingum og reynslu um menntamál til stefnumótandi aðila og koma upplýsingum á framfæri til allra sem starfa að skólamálum í Evrópu. Upplýsinganetið hefur allt frá árinu 1980 verið hluti af því samstarfi sem framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkin hafa komið á fót í því skyni að auka skilning á menntakerfum og menntastefnum. Með því að varpa ljósi á ólíka þætti í menntakerfum landanna stuðlar starfsemi Eurydice að gagnsæi og auknum skilningi. Starfsemin leggur einnig sitt af mörkum, með beinum eða óbeinum hætti, til að bæta menntastefnu einstakra landa jafnt sem evrópska menntastefnu.

Verkefni

Helstu verkefni Eurydice eru að veita áreiðanlegar upplýsingar og alhliða greiningu á evrópskum menntakerfum og stefnum þeirra. Dregin er upp lýsing á menntakerfum landanna, fjallað er um samanburðarrannsóknir á einstaka viðfangsefnum, mælikvörðum og tölfræði.

Landskrifstofa hvers þátttökulands safnar saman upplýsingum og aðstoðar við greiningu og úrvinnslu þeirra. Evrópuskrifstofan samræmir starfsemi tengslanetsins en hún er starfrækt á vegum EACEA í Brussel. Allt efni sem Eurydice gefur út er fáanlegt án endurgjalds á heimasíðu Eurydice.

Útgáfur

Margbreytileg greiningar- og samanburðarrit eru gefin út á vegum Eurydice. Um er að ræða grundvallarrit þar sem leitast er við að lýsa uppbyggingu menntakerfa landanna eða taka til athugunar tiltekna þætti menntakerfanna svo sem kennaramenntun, tungumálakennslu, aðgengi að æðri menntun svo eitthvað sé nefnt. Einnig er um að ræða úttektir á ýmsum stigum menntunar eins og leik,- grunn- og framhaldsskóla eða á einu afmörkuðu sviði eins og til dæmis starfstíma skóla.

Útgáfur Eurydice

Vefur Eurydice