Evrópski hæfniramminn um menntun, sem samþykktur var af Evrópusambandinu í september 2008, er sameiginlegur evrópskur viðmiðunarrammi sem m.a. þjónar þeim tilgangi að tengja saman hæfniramma Evrópuþjóða þannig að hægt sé að bera saman nám á milli landa. Meginmarkmið Evrópska hæfnirammans er að allt nám sem fram fer í álfunni sé gagnsætt og að hægt sé að fá námslok og starfsréttindi úr einu landi viðurkennt í öllum hinum. Þannig er rammanum bæði ætlað að styðja við hreyfanleika á milli landa sem og stuðla að námi alla ævi. Þetta á ekki aðeins við um formlegt nám heldur einnig formlaust nám (nám sem er afleiðing af daglegum athöfnum tengdum starfi, fjölskyldu eða frítíma og er yfirleitt ekki vottað) eða óformlegt nám (nám sem er innifalið í skipulögðu ferli en ekki augljóslega ætlað sem nám og leiðir venjulega ekki til prófskírteinis eða viðurkenninga) sem t.d. fer fram í atvinnulífinu. Viðurkenning á erlendu námi byggist á trausti og því eru öll þátttökulöndin hvött til þess að koma sér upp öflugu og óhlutdrægu gæðakerfi innan síns menntakerfis.
Evrópski hæfniramminn um menntun telur 8 þrep. Þau lönd sem þegar hafa samþykkt eigin hæfiramma nota mismörg þrep, flest 8 en fjöldi þrepa spannar frá 7 (Ísland og Noregur) upp í 12 (Skotland). Á vefnum Learning Opportunities and Qualifications in Europe er hægt að bera saman þrep hæfniramma í mismunandi Evrópulöndum og námslok þeim tengd.