1. Forsíða
  2. 4. bekkingar þreyta samræmd könnunarpróf í vikunni

4. bekkingar þreyta samræmd könnunarpróf í vikunni

Næsti áfangi í fyrirlögn samræmdra könnunarprófa

Á fimmtudag og föstudag í þessari viku verða samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði lögð fyrir nemendur í 4. bekk grunnskóla. Líkt og í 7. bekk í fyrri viku verða prófin lögð fyrir með rafrænum hætti. Almennt gengu prófin í 7. bekk vel og flest vandamál sem upp komu voru leyst í samstarfi Menntamálastofnunar og skólanna.

Í nokkrum tilfellum gátu nemendur í 7. bekk ekki ritað broddstafi í ritunarþætti íslenskuprófsins. Komið hefur í ljós að ástæða þessa vanda var uppfærsla á svokölluðum veflás, sem kemur í veg fyrir að nemendur geti leitað á netinu á meðan á fyrirlögn stendur. Tillaga að lausn er komin frá erlendum samstarfsaðila Menntamálastofnunar, en stofnunin metur það svo að of skammur tími sé til stefnu til að prófa til fulls hvort nýja lausnin geti haft í för með sér önnur vandamál.

Vert er að árétta að vanda við að skrifa broddstafi varð einungis vart hjá litlum hluta nemendahópsins en fyrstu athuganir benda til að 3% nemenda hafi ekki getað skrifað broddstafi. Hann er ekki til staðar hjá þeim sem nota spjaldtölvur við próftöku og einungis hjá litlum hluta þeirra nemenda sem þreyta prófið á borð- eða fartölvur. Eins hafa takmarkanir á að skrifa broddstafi einungis áhrif í ritunarþætti prófsins, þar sem nemendur skrifa sjálfir texta, en í lesskilningshluta, málnotkun og verkefnum þeim tengdum reynir ekki á ritun.

Að teknu tilliti til þessa hefur Menntamálastofnun ákveðið að fyrirlögn íslenskuprófsins í þessari viku verði með sama sniði og í liðinni viku. Með því er hætta á að vandamál komi upp við fyrirlögn prófsins lágmörkuð. Það er vissulega bagalegt að hluti nemenda í 4. bekk muni ekki geta skrifað broddstafi og biðst stofnunin velvirðingar á því. Fullt tillit verður tekið til þess í yfirferð prófsins og nemendur látnir njóta alls vafa.

Menntamálastofnun bendir á að þegar jafn umfangsmikið fyrsta skref er stigið og nú í innleiðingu rafrænna prófa er viðbúið að vandamál komi upp. Vill stofnunin þakka sérstaklega stjórnendum og kennurum í grunnskólum sem og nemendum og foreldrum þeirra fyrir skilning og þolinmæði í þessu breytingarferli og vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi við að þróa námsmat í grunnskólum. 

skrifað 28. SEP. 2016.