1. Forsíða
  2. Auglýst er eftir tilnefningum í fagráð náms- og gæðamats

Auglýst er eftir tilnefningum í fagráð náms- og gæðamats

Menntamálastofnun auglýsir eftir fulltrúa í fagráð á sviði náms- og gæðamats. Um er að ræða sæti eins fulltrúa sem hætt hefur í ráðinu vegna annarra starfa.

Samkvæmt 4. gr. laga um Menntamálastofnun nr. 91/2015 og reglugerð um fagráð stofnunarinnar nr. 530/2016 skal forstjóri setja á fót fagráð við stofnunina. Hvert þeirra skal skipað sérfróðum fulltrúum.  

Lýsing á viðfangsefnum á sviði náms- og gæðamats: Menntamálastofnun hefur eftirlit og metur árangur af skólastarfi. Í því felst að sjá um samræmd könnunarpróf í grunnskólum og stöðupróf í leik- og grunnskólum sem eru hluti af Þjóðarsáttmála um læsi. Menntamálastofnun sér einnig um ytra mat á leik-, grunn- og framhaldsskólum. Loks sinnir stofnunin eftirliti og mælingum á stöðu skólakerfisins út frá alþjóðlegum viðmiðum.

Hæfnikröfur: Leitað er eftir aðila sem býr yfir þekkingu og reynslu á sviði náms- og gæðamats með starfi á vettvangi skóla/fræðsluaðila, fræða- og rannsóknasamfélags eða atvinnulífs. Við skipan í fagráð skal hafa til viðmiðunar að viðkomandi aðili hafi faglega þekkingu og reynslu á starfssviði fagráðsins.

Við skipan í fagráð skal gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Einnig skal taka mið af því að hvert fagráð sé skipað einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn.

Í fagráði náms- og gæðamats sitja fimm aðilar en auk þess starfar með ráðinu einn starfsmaður Menntamálastofnunar.  

Greitt verður fyrir undirbúning og fundarsetu samkvæmt þóknunarreglum fjármálaráðuneytisins og fundar það að jafnaði tvisvar á ári.

Umsóknir með upplýsingum um menntun, starfsreynslu og stuttri greinargerð um sýn viðkomandi á náms- og gæðamat sendist til Menntamálastofnunar fyrir lok dags 20. nóvember nk. á netfangið [email protected].

Nánari upplýsingar veitir sviðsstjóri matssviðs Menntamálastofnunar:

Sverrir Óskarsson
S: 514-7500
[email protected]
 

skrifað 08. NóV. 2018.