1. Forsíða
  2. Endurfyrirlögn samræmdra könnunarprófa framundan

Endurfyrirlögn samræmdra könnunarprófa framundan

Samræmd könnunarpróf í íslensku og ensku verða lögð fyrir nemendur 10. bekkjar í tíu grunnskólum dagana 10. - 14. september. Um er að ræða endurfyrirlögn prófa sem 9. bekkingar þreyttu í mars sl. en vegna tæknilegra vandamála í rafrænu prófakerfi tókst aðeins um helmingi nemenda að ljúka prófunum þá. Í kjölfarið ákvað menntamálaráðherra að öllum nemendum yrði gefinn kostur á að taka prófin að nýju og að stjórnendur í hverjum skóla tækju ákvörðun um hvort prófin yrðu lögð fyrir sl. vor eða nú í haust.  Í 130 skólum var ákveðið að leggja þau fyrir að vori og gekk framkvæmd prófanna hnökralaust fyrir sig. Í næstu viku mun endurfyrirlögn prófanna fara fram í þeim tíu skólum sem ákváðu að fresta fyrirlögn fram á haustið. 

Vinnulag við undirbúning og framkvæmd prófanna tekur mið af niðurstöðum óháðra úttekta sem gerðar voru að loknum prófunum í mars. Skýrslur um úttekt á fyrirlögn má sjá hér. Verkferlar hafa verið endurskoðaðir, tæknilegri högun prófakerfis hefur verið breytt og skólum er í sjálfsvald sett á hvaða tíma dags prófin hefjast, svo álag á prófakerfið dreifist betur en hingað til. Viðbragðsáætlanir hafa verið endurbættar m.a. til að auðvelda skólastjórnendum að bregðast við ef truflanir verða við fyrirlögn prófanna.

Markmið samræmdu könnunarprófanna eru í aðalatriðum tvíþætt. Í fyrsta lagi er prófunum ætlað að vera foreldrum, kennurum og skólayfirvöldum til leiðbeiningar um námsstöðu hvers barns. Í annan stað eiga þau að gefa upplýsingar um grundvallarkunnáttu og færni sem frekara nám byggist á, svo bregðast megi faglega við ef þurfa þykir og veita stuðning sem gerir skólagöngu barnsins sem árangursríkasta. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta er afmörkuð könnun í tveimur námsgreinum og aðeins ein leið af mörgum sem eru notaðar til að meta nám og veita endurgjöf á frammistöðu.

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því, að framhaldsskólar óska ekki eftir niðurstöðum samræmdra könnunarprófa þegar umsóknir um framhaldsskólavist eru metnar, enda er prófunum ekki ætlað að veita heildarmat á námsstöðu einstaklings við lok skyldunáms.

skrifað 07. SEP. 2018.