1. Forsíða
  2. Enn eykst notkun lesfimiprófa

Enn eykst notkun lesfimiprófa

Opnað hefur verið fyrir skráningu á lesfimi í þriðja skipti og er það Menntamálastofnun mikið ánægjuefni að þeim kennurum fer fjölgandi sem nýta lesfimiprófin fyrir sína nemendur. Á fyrri helmingi fyrirlagnartímabils er fjöldi skráðra nemenda í lesfimi 13.963 úr 119 skólum víðsvegar um land sem er töluverð aukning miðað við sama tímabil í janúar. Svo virðist sem skólar utan höfuðborgarsvæðisins séu fljótari til, því 60% þessara skráninga koma frá skólum í dreifbýli.

Nú er svo komið að skólar eru farnir að nýta sér þær niðurstöður lesfimiprófa sem Skólagátt Menntamálastofnunar birtir. Kennarar geta séð stöðu hvers nemanda innan bekkjar og framfarir miðað við árgang.

Lesfimi er heiti á einu af matstækjum Menntamálastofnunar sem er ætlað að meta einn  grunnþátt læsis, sjálfa lesfimina. Niðurstöður lesfimiprófa koma til með að nýtast kennurum við að meta framfarir nemenda í lestri á skilvirkan hátt og einnig til að finna þá nemendur sem þurfa aukna aðstoð.  

Lesfimi er einn hluti Lesferlis Menntamálastofnunar sem er kerfi sem metur fjóra undirstöðuþætti læsis, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning. Lesferill mun nýtast nemendum frá þriggja til 16 ára aldurs og er um að ræða fjögur próf sem snúa að umskráningu eða sjálfri lestrartækninni. 

Myndin sýnir fjölda þeirra nemenda sem skráðir voru í kerfið á síðustu þremur tímabilum. Til samanburðar má sjá lengst til hægri, heildarfjölda íslenskra grunnskólanemenda. Taka þarf fram að tölur fyrir maí eru einungis til bráðabirgða þar sem enn eru eftir tvær vikur af próftímabilinu.

skrifað 15. MAí. 2017.