1. Forsíða
  2. Eurydice-skýrsla um laun kennara og skólastjórnenda í Evrópu

Eurydice-skýrsla um laun kennara og skólastjórnenda í Evrópu

Út er komin samanburðarskýrsla á vegum Eurydice: Teachers' and School Heads' Salaries and Allowances in Europe – 2018/19. Í skýrslunni er að finna samanburðarhæfar upplýsingar um laun kennara og skólastjórnenda, skólaárið 2018-2019.  

Í skýrslunni má finna samanburðarhæfar upplýsingar um samningsbundin laun kennara og skólastjórnenda í Evrópu. Laun á grunn- og framhaldsskólastigi í þátttökuríkjum Eurydice eru æði misjöfn samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar. Töluverðan mun má einnig greina á starfsaldurs­hækkunum meðal þeirra 42 ríkja sem tóku þátt í rannsókninni. Að meðaltali tekur það kennara sem kenna á unglingastigi í grunnskóla um 28 ár að vinna sig upp í hæstu laun. Á Íslandi ná kennarar hámarkslaunum eftir um 15 ár. Þetta og margt fleira áhugavert sem tengist launum og launaþróun, er meðal þess sem sjá má í skýrslu Eurydice samstarfsins um laun kennara og skólastjórnenda sem lesa má í heild sinni hér.          

Samningsbundin byrjunarlaun kennara í Evrópu  eru borin saman í tengslum við þær menntunarkröfur sem gerðar eru á hverjum stað til að öðlast kennararéttindi. Bornar eru saman rauntölur samkvæmt kjarasamningum á þremur tímabilum á kennsluferli kennara, þ.e. byrjunarlaun, laun eftir 15 ára kennslureynslu og loks hæstu möguleg laun samkvæmt kjarasamningum.Byrjunarlaunin eru allt frá 5.000 til 80 000 evra á ári. Hér á landi eru árslaunin tæpar 45 000 evrur. Launamunur kennara milli landa er nátengdur vergri landsframleiðslu (GDP). Nokkur lönd hafa þó gert verulegt átak til þess að hækka laun kennara umfram verðbólgu, t.d. Búlgaría, Rúmenía, Ungverjaland, Slóvakía, Eistland, Lettland og Litáen. Laun kennara hafa einnig hækkað nokkuð á Írlandi, Möltu og í Svíþjóð.

Starfsreynsla er metin misjafnlega til launa í löndum Evrópu. Launahækkanir með vaxandi starfsaldri geta verið allt frá 12% til 116% á starfsferlinum. Á Íslandi hafa byrjunarlaun að jafnaði hækkað um 20% eftir 15 ár í starfi. Aðeins tekur 6 ár í Skotlandi að fá allar starfsaldurstengdar hækkanir, í Ungverjandi tekur það 42 ár. Á Írlandi, í Hollandi og Póllandi geta byrjunarlaun hækkað um yfir 60% á fyrstu 15 árum starfsævinnar og enn frekar þar á eftir. 
Í um helmingi landa er viðbótarmenntun metin til launa með ýmsum hætti.  

Í 12 löndum er enginn, eða mjög  lítill, munur á byrjunarlaunum kennara milli skólastiga. Í ríkjum þar sem laun kennara eru hærri á tilteknu skólastigi eru oftast gerðar meiri kröfur um menntun kennara (t.d. um meistarapróf) á því stigi. Þetta er þó ekki algilt. Ísland er meðal nokkurra ríkja þar sem gerðar eru sömu kröfur til kennara um menntunarstig (ISCED 7 eða meistarapróf)  óháð skólastigi.  Mikilvægt er að taka fram að í rannsókninni eru einungis kannaðar formlegar kröfur (lög og reglugerðir) en ekki hvort eða hversu tíðar undanþágur eru veittar frá formlegum kröfum.

Skólastjórar fá yfirleitt greitt eftir öðrum launakvarða en kennarar og eru laun þeirra oft tengd stærð skólans, auk reynslu og ábyrgðar. Af þessum ástæðum eru laun skólastjóra í sama landi oft nokkuð breytileg og í sumum tilfellum geta laun skólastjóra í smærri skólum verið lægri en t.d. laun kennara með 15 ára reynslu.

skrifað 06. OKT. 2020.