1. Forsíða
  2. Frumgerðir mynda úr námsbókum sýndar í fyrsta sinn

Frumgerðir mynda úr námsbókum sýndar í fyrsta sinn

Fjölmenni var mætt í Bókasafn Kópavogs um helgina þegar Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði sýningu á myndum úr safni Menntamálastofnunar.

Um er að ræða frumgerðir mynda úr námsbókum, sem sumar eru allt að 80 ára. Verkin voru upphaflegu í eigu Ríkisútgáfu námsbóka og Námsgagnastofnunar, en Menntamálastofnun fékk myndasafn þeirra í arf  þegar hún var sett á laggirnar árið 2015. Við opnunina las ráðherra upp færslu úr fundargerðarbók Ríkisútgáfunnar frá 1938, þar sem ákveðið var að kaupa kennslubókina Unga litla, sem margar kynslóðir Íslendinga lásu í barnaskóla, myndamót og umsjón með prentun fyrir 1.000 krónur!

Frumrit teikninganna úr Unga litla eru meðal verka á sýningunni en þar má líka sjá myndir úr Litlu gulu hænunni, Við lesum og kennslubókum úr grasa- og dýrafræði. Verkin eru eftir marga af fremstu listamönnum þjóðarinnar; Jóhann Briem, Halldór Pétursson, Baltasar Samper, Sigrúnu Eldjárn, Ragnheiði Gestsdóttur, Halldór Baldursson og fleiri.

Hugmyndina að sýningunni fékk Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, sýningarstjóri, sem setti á síðasta ári upp sýningu um íslenskar barnabækur í gegnum tíðina. Við undirbúning hennar fékk Guðfinna spurnir af safneign Menntamálastofnunar en við skoðun taldi hún efnið svo umfangsmikið og athyglisvert að sérstaka sýningu þyrfti fyrir það. Hún er nú orðinn að veruleika, undir heitinu Tíðarandinn í teikningum en titillinn vísar til þeirra mannlífs- og samtímamynda sem birtast í námsbókum frá ólíkum tímum.

Á sýningunni er áhersla lögð á fjölbreytni í efnistökum, þar sem sjá má ólíkar myndstefnur og stíla, teikningar, málverk, klippimyndir og skýringarmyndir úr lestrar- og móðurmálskennslu fyrri ára, náttúrufræði, samfélagsfræði o.s.frv. Þá eru til sýnis skissur og vinnuskjöl sem sýna greinilega hvernig valdar teikningar hafa þróast frá hugmynd að endanlegri útfærslu. 

Sýningin er samstarfsverkefni Menntamálastofnunar, Bókasafns Kópavogs og Náttúrustofu Kópavogs. Hún er opin til 23. febrúar og er bæði fyrir börn og fullorðna.

          

          

          

          

 

skrifað 14. JAN. 2019.