1. Forsíða
  2. Fundur um PISA: Greining á stöðu lesskilnings

Fundur um PISA: Greining á stöðu lesskilnings

Á sameiginlegum fundi Menntamálastofnunar, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Kennarasambands Íslands mánudaginn 3. febrúar, var fjallað sérstaklega um lesskilning og einnig um stöðu íslenskra nemenda í lesfimi. Fundurinn var sá fyrsti af fjórum í fundarröðinni PISA í hnotskurn. Á fundinum höfðu framsögu Guðmundur Bjarki Þorgrímsson verkefnisstjóri PISA hjá Menntamálastofnun, Baldur Sigurðsson dósent, Sigríður Ólafsdóttir lektor og Sigurrós Eiðsdóttir grunnskólakennari.

Á fundinum kom fram að í kjölfar niðurstöðu á PISA 2018 hefur umræðan um lesskilning íslenskra grunnskólabarna komist í hámæli og er það sannarlega áhyggjuefni hversu hátt hlutfall nemenda getur ekki nýtt sér lestur til upplýsingaöflunar. Þessi staða getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þessa nemendur og því hlýtur það að liggja beint við að leita uppruna vandans.

Hefðbundnu læsi er venjulega skipt í tvo meginþætti eða tæknilega hlið lestrar (umskráningu) og lesskilning en það er m.a. gert til að einfalda greiningu á vanda. Tæknileg hlið lestrar er metin með lesfimiprófum sem meta fyrst og fremst sjálfvirkni lestrar og lestrarnákvæmni. Eftir því sem lesturinn verður sjálfvirkari eykst lestrarhraðinn og minni orka og athygli fer í umskráninguna.

Markmið allrar þjálfunar, hvort sem það er að læra að hjóla, prjóna, aka bíl, valda bolta eða að lesa, er að geta beitt færni án umhugsunar. Þessi sjálfvirki lestur eða lesfimi er lykillinn að lestrargaldrinum og brúin yfir í lesskilninginn. Þess vegna er það mjög mikilvægt að allir nemendur nái tökum á fullkomlega sjálfvirkum lestri. Samkvæmt lesfimimati Menntamálstofnunar útskrifuðust 30,2% nemenda úr grunnskóla vorið 2019 án þess að vera búin að ná þessari færni en þetta er grundvallarfærni eigi nemendum að takast að glíma við flóknari texta á næsta námsstigi. Í PISA 2018 var lesfimi könnuð sérstaklega og eru niðurstöður þar svipaðar og í lesfimiprófum Menntamálastofnunar.

Athuganir Menntamálastofnunar á tengslum niðurstaðna lesfimiprófa stofnunarinnar og lesskilnings, eins og hann er mældur í samræmdum prófum sýna að mikil fylgni er þar á milli. Svipaðar vísbendingar má einnig finna í mælingum PISA á lesfimi og lesskilningi. Mikilvægt er að efla lesfimi og jafnframt að leggja áherslu á lesskilning með miklum lestri, úrvinnslu á texta og beitingu lesskilningsaðferða í glímu við texta.

Næstu fundur í fundarröðinni verður mánudaginn 17. febrúar þar sem fjallað verður um greiningu á stöðu læsis í stærðfræði.

skrifað 05. FEB. 2020.