1. Forsíða
  2. Fyrstu samræmdu könnunarprófin á rafrænu formi lögð fyrir

Fyrstu samræmdu könnunarprófin á rafrænu formi lögð fyrir

Fyrstu samræmdu könnunarprófin á rafrænu formi lögð fyrir

Tímamót verða í íslensku skólastarfi þegar samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði verða lögð fyrir á rafrænu formi í þessari viku og þeirri næstu. Dagana 22. og 23. september munu nemendur í 7. bekk þreyta rafræn próf og 29. og 30. september er röðin komin að nemendum í 4. bekk.

Í desember sl. fól mennta- og menningarmálaráðuneyti Menntamálastofnun að innleiða rafræna fyrirlögn á samræmdum könnunarprófum í grunnskólum. Rafræn próf gefa kost á að meta betur hæfni nemenda en hefðbundið fyrirkomulag og í framtíðinni verður unnt að aðlaga próffyrirlögn að færni nemenda. Teymi innan Menntamálastofnunar hóf undirbúning í janúar 2016 og unnið hefur verið samkvæmt verkáætlun sem m.a. fól í sér greiningu á tækjabúnaði í skólum og samstarf við sveitarfélög og skóla.

Umfangsmikil upplýsingagjöf

Mikilvægt verkefni teymisins hefur verið að halda skólasamfélaginu í heild sem best upplýstu um gang mála. Opnuð var Facebook-síða, Innleiðing rafrænna prófa, þar sem settar hafa verið inn ýmsar gagnlegar upplýsingar um próffyrirlögnina. Þá hafa ítarlegar upplýsingar verið settar inn á heimasíðu Menntamálastofnunar og þær uppfærðar reglulega.

Haldnir hafa verið níu kynningarfundir víða um land auk fjarfundar. Fundirnir gengu vonum framar en þá sóttu hátt í 700 manns. Fundur í Kópavogi var tekinn upp og er aðgengilegur á heimasíðu Menntamálastofnunar. Það sem stendur upp úr er hvað skólafólk er almennt jákvætt og í raun spennt að takast á við þetta verkefni og komu ýmsar góðar ábendingar fram á fundunum.

Menntamálastofnun hefur undanfarnar tvær vikur haft samband við alla grunnskóla landsins til að kanna undirbúning skóla, svara fyrirspurnum skólastjóra og tengiliða varðandi könnunarprófin og veitt þeim ráðgjöf.

Undirbúningur fyrir skóla og nemendur

Ýmislegt hefur verið gert til að undirbúa skóla og nemendur sem best fyrir samræmdu könnunarprófin. Settar voru inn leiðbeiningar varðandi tæknileg atriði fyrir tölvumenn skóla og framkvæmdahefti með námkvæmum leiðbeiningum fyrir kennara og skólastjórnendur um undirbúning og fyrirlögn prófanna. Þá voru sett upp æfingapróf, annars vegar fyrir kennara og hins vegar nemendur og foreldra. Þannig gafst þeim tækifæri á að skoða og kynnast prófakerfinu.

Könnun var gerð á tækjabúnaði allra skóla í landinu í vor. Útkoman var sú að flestir skólar gætu tekið þátt með því að bjóða upp á tvær fyrirlagnir og var strax haft samband við sveitarfélög um úrbætur hjá þeim skólum þar sem þeirra var þörf. Jafnframt var haft samráð við innanríkisráðuneytið um úrbætur á nettengingum skóla á landsbyggðinni þannig að þeir gætu uppfyllt lágmarksskilyrði rafrænnar próftöku.

Þá var skólum boðið að láta alla nemendur í þriðja bekk þreyta rafrænt tilraunarpróf í maí sem hluta af undirbúningsferlinu. Það gaf skólum kost á að prófa rafræna próffyrirlögn í prófakerfinu sem notað er og gefa um leið hópunum sem nú eru á leið í samræmt könnunarpróf í 4. bekk tækifæri til að kynnast kerfinu.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á uppbyggingu samræmdra könnunarprófa og þau verða styttri en áður þar sem prófatriðum hefur verið fækkað. Stafsetning hefur að mestu verið tekin út og verður hún prófuð með öðrum hætti. Þá eru reglustika, gráðubogi og reiknivél innbyggð í rafræna prófið. Haldið verður utan um gögn með sambærilegum hætti og áður hefur verið gert við skráningu og úrvinnslu prófanna.   

Viðbrögð við vandamálum sem upp kunna að koma

Þegar ráðist er í svo umfangsmiklar breytingar á samræmdum könnunarprófum er alltaf möguleiki á að eitthvað fari úrskeiðis. Löng hefð er fyrir því að próf séu lögð fyrir á pappír og breytingarnar munu reyna á bæði nemendur og starfsfólk skóla. Rafræn próf reyna nokkuð á tölvukunnáttu nemenda og viðbúið er að bregðast þurfi við ýmsum vandamálum á meðan á fyrirlögn stendur. Mun starfsfólk Menntamálastofnunar leggja sig fram um að vera í góðu sambandi við skóla og aðstoða við að leysa úr öllum þeim málum sem upp kunna að koma. Verða nemendur látnir njóta alls vafa þar sem þess er nokkur kostur ef vandamál koma upp.

Vill Menntamálastofnun þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að undirbúningi rafrænnar fyrirlagnar og vonast til að eiga sem best samstarf við þá um framkvæmdina. 

skrifað 21. SEP. 2016.