1. Forsíða
  2. Góður árangur hjá yngstu árgöngunum

Góður árangur hjá yngstu árgöngunum

Mennta- og menningarmálaráðherra kynnti niðurstöður lesfimiprófa sem voru lögð fyrir íslenska grunnskólanemendur í fyrsta skipti skólaárið 2016–2017, á blaðamannafundi í morgun. Þar kom fram að fyrstu niðurstöður gefi til kynna að margir skólar hafi náð góðum árangri, sérstaklega í yngstu árgöngunum. Hins vegar bendi staðan til þess að þörf sé á umbótum og að lögð verði áhersla á að bæta lesfimi nemenda á mið- og unglingastigi.

Góð þátttaka skóla

Þátttaka í lesfimiprófunum fyrsta árið var afar góð en 75% nemenda í 1.-10. bekk tóku þátt í prófunum í maí. Mest þátttaka var í 3. bekk eða 83% en minnst í 10. bekk þar sem 54% nemenda tóku þátt. Alls lögðu 93% skóla prófin fyrir á skólaárinu 2016-2017.

Árgangar eru mislangt frá lesfimiviðmiðum. Nemendur í fyrsta bekk eru þeir einu sem eru nálægt því að ná viðmiði 1 (89%) en einungis 67% nemenda í sjötta bekk og 68% nemenda í tíunda bekk ná þessum lægstu viðmiðum.

Þetta er í fyrsta sinn sem heildargögn um stöðu og framfarir íslenskra nemenda í lesfimi liggja fyrir og því er skal tekið fram að þetta eru eingöngu niðurstöður þessa fyrsta árs.

Ánægja meðal foreldra og kennara

Kennarar og foreldrar hafa lýst yfir ánægju með lesfimiprófin og hvernig Þjóðarsáttmálinn hefur stutt við eflingu lesturs í skólum og á heimilum. Kennarar og skólastjórar eiga hrós skilið fyrir jákvæð viðbrögð og góða þátttöku en án aðkomu og samvinnu skólasamfélagsins hefðu lesfimiprófin aldrei litið dagsins ljós.

Í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu kemur fram að mikilvægt sé að allt skólasamfélagið, sveitarfélög, foreldrar og fleiri áhugasamir um læsi haldi áfram af sama krafti að efla lestur barna. Með aukinni hæfni og færni í lestri geti börn og ungmenni betur tekist á við kröfur í nútímasamfélagi og eigi auðveldara með frekara nám og atvinnuþátttöku. Mennta- og menningarmálaráðuneyti muni áfram leggja áherslu á margvísleg verkefni sem tengjast Þjóðarsáttmála um læsi og Menntamálastofnun muni halda áfram að veita markvissa ráðgjöf og þróa betri verkfæri til að styðja við nemendur, kennara, foreldra, sveitarfélög og aðra sem vilja efla lestur barna.

Á blaðamannafundinum lýsti Þórður Hjaltested, formaður Kennarasamband Íslands, yfir ánægju sinni með að mælitækið sé tilbúið og að farið sé að nýta það í skólum landsins. „Þetta er einfalt og er þannig úr garði gert að það krefur kennara ekki um mikla aukavinnu,“ sagði Þórður. Hann bætti við að allt skólafólk væri sammála því að gera þurfi betur og að samspil skóla og heimila sé mikilvægt. „Skólar og heimili eru saman að kenna lestur og síþjálfunin er mikilvæg börnum til að ná tökum á lestri.“

Ítarlega samantekt á niðurstöðum lesfimiprófanna má sjá hér

skrifað 28. áGú. 2017.