1. Forsíða
  2. Hlutfall karla án framhaldsskólamenntunar hærra

Hlutfall karla án framhaldsskólamenntunar hærra

Hlutfall karla án framhaldsskólamenntunar á aldrinum 25 til 34 ára er hærra hér á landi en á öðrum Norðurlöndum

Í ný útkominni skýrslu OECD um tölfræði menntunar Education at a Glance 2018  kemur fram að hátt hlutfall karla á Íslandi eða 23,6% hefur ekki lokið námi á framhaldsskólastigi í samanburði við önnur lönd innan OECD. Þegar einungis lönd innan Evrópu eru skoðuð þá eru aðeins fjögur lönd þar sem hærra hlutfall karla en á Íslandi hefur ekki lokið námi í framhaldsskóla. Þetta eru Tyrkland, Spánn, Portúgal og Ítalía. Næst á eftir Íslandi koma Norðurlöndin Noregur (21,5%), Danmörk (20,5%) og Svíþjóð (19%).  Finnland  sker sig úr í þessum samanburði eitt Norðurlanda en þar er mun lægra hlutfall karla sem ekki hafa lokið framhaldsskólaprófi eða rúm 11%. Finnland raðar sér með löndum á borð við Írland, Austuríki, Litháen og Bretland.

Mynd 1 Hlutfall (%) 25 til 34 ára eftir kyni sem hafa ekki lokið framhaldsskólaprófi – Norðurlöndin

Munur milli kynja er fjórði hæstur á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd OECD, eða um 9 prósentustig. Í Danmörku er munur milli kynja tæp 8 prósentustig og 3-5% á öðrum Norðurlöndum.

Kynjamunurinn á Íslandi hefur þó minnkað umtalsvert frá 2003 á landinu í heild. Töluverður munur er enn á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Langmesta breytingu er að finna meðal kvenna á landsbyggð en árið 2003 var hlutfall kvenna á landsbyggð sem ekki hafði lokið framhaldskólaprófi 56% hjá 25-64 ára. Það er nú komið niður í 30% og er svipað og meðal karla á landsbyggð. Hlutfall kvenna á höfuðborgarsvæðinu sem ekki hefur lokið framhaldskólaprófi hefur einnig lækkað um nær helming, úr 32% í 18%. Meðal yngra fólks, þ.e. í aldurshópnum 25-34 ára hafa mun fleiri konur en karlar lokið framhaldsskólaprófi. 

Nánari samantekt má finna hér.

skrifað 15. OKT. 2018.