Hvers vegna að læra dönsku?
Íslendingar eiga fjölbreytt samskipti við aðrar Norðurlandaþjóðir og því kemur dönskukunnátta sér vel. Við erum í ýmiss konar samstarfi í tengslum við menntamál, menningarmál, stjórnmál og félagsmál. Saga okkar er samofin sögu annarra norrænna þjóða, menningararfurinn er sameiginlegur og tungumálin eru sprottin af sömu rót. Það er samt sem áður ákvörðun menntamálayfirvalda að íslenskir nemendur skuli læra dönsku en í aðalnámskrá grunnskóla stendur:
„Tilgangurinn með kennslu í norrænum tungumálum á Íslandi er að viðhalda og styrkja tengslin við Norðurlandaþjóðirnar og stuðla að því að Íslendingar eigi greiða leið að sameiginlegum markaði menntunar og atvinnu á öllum Norðurlöndunum.“
Hvers vegna ekki að læra frekar sænsku eða norsku? Sú spurning heyrist stundum, ekki síst eftir að byrjað var að sýna hér á landi norsku þættina Skam. Danskan er ágætlega til þess fallin að gegna lykilhlutverki. Þeir Íslendingar sem ná góðum tökum á dönsku eiga yfirleitt gott með að skilja norsku og sænsku. Ef þeir síðan aðlaga dönskuna að íslenskum framburði geta þeir einnig gert sig skiljanlega á þessum tungumálum. Auk þess er danska kennd sem erlent mál í Færeyjum og á Grænlandi og því kemur það sér vel að kunna dönsku til að geta átt í samskiptum við þær grannþjóðir okkar.
Hér má finna námsefni í dönsku á vef Menntamálastofnunar sem allir geta spreytt sig á:
Start – leikir sem kenna grunnorðaforða.
Leg med dansk – leikir sem ganga út á að kenna algeng orð í dönsku, ritun þeirra, lestur og framburð.
Lyt og se – myndbönd, leikir og fleira sem getur aukið málsskilning og orðaforða.
Lige i lommen – fjölbreytt verkefni og myndbönd þar sem Íslendingar sem hafa lært eða unnið í Danmörku, segja frá reynslu sinni. Til dæmis segir Rúrik Gíslason atvinnumaður í fótbolta frá lífinu í Danmörku þegar hann spilaði með F.C. Copenhagen.
Norden i skolen – Úrval af verkefnum sem styðja við fagleg markmið í öllum norrænum aðalnámskrám.