1. Forsíða
  2. Íslenskukennsla í 10. bekk - Svör nemenda í PISA 2018

Íslenskukennsla í 10. bekk - Svör nemenda í PISA 2018

Í PISA könnununum eru nemendur meðal annars spurðir um venjur og viðhorf sem tengjast námi og kennslu.Í síðustu könnun PISA árið 2018 var aðaláherslan á lesskilning og nemendur voru meðal annars spurðir um upplifun sína af móðurmálskennslu í skólanum. Menntamálastofnun hefur gert stutta samantekt á svörum íslenskra nemenda í PISA 2018 um íslenskukennslu.

Þar kemur meðal annars fram að flestir nemendur upplifa að íslenskukennarar séu áhugasamir um kennslu og námsefni og veiti þeim oft stuðning í náminu en stuðningur frá kennurum í móðurmálstímum mælist hærri á Íslandi en að jafnaði í löndum OECD. Kennarastýring í kennslu íslensku – sem felst meðal annars í því að setja skýr markmið og staðfesta skilning nemenda – virðist einnig algeng á Íslandi og mælist algengari hér en í nágrannalöndunum. Íslenskir nemendur segja það hins vegar koma sjaldnar fyrir að þeir fái endurgjöf frá kennurum í íslenskutímum og að sama skapi er Ísland undir meðaltali OECD þegar kemur að endurgjöf. 

Þá kemur fram að íslenskir nemendur sem hafa innflytjendabakgrunn eru ólíklegri en aðrir nemendur til að upplifa stuðning frá kennurum í íslenskutímum, að kennarar hafi áhuga á kennslu og að kennarar aðlagi kennslu að nemendum. Í samantektinni er einnig að finna upplýsingar um svör íslenskra nemenda samanborið við svör nemenda á Norðurlöndunum og svör nemenda úr einstökum landshlutum á Íslandi samanborið við landsmeðaltal.
 

skrifað 17. NóV. 2020.