1. Forsíða
  2. Ljóðaflóð 2022 | Vinningshafar

Ljóðaflóð 2022 | Vinningshafar

Úrslit í ljóðasamkeppni grunnskólanema, Ljóðaflóð 2022, liggja nú fyrir. Menntamálastofnun, í samstarfi við Krakkarúv, efndi til keppninnar í tilefni af degi íslenskrar tungu. Í keppninni var ljóðformið frjálst og ánægjulegt að sjá hversu fjölbreytt og vönduð ljóð bárust. Nemendur sömdu bæði bundin og óbundin ljóð, hækur og myndljóð en alls bárust 302 ljóð frá 28 skólum víðs vegar að af landinu. Frá yngsta stigi bárust 54 ljóð, 167 frá miðstigi og 81 ljóð frá unglingastigi.

Þriggja manna dómnefnd lagði mat á ljóðin en í henni sat Dagur Hjartarson ljóðskáld ásamt ritstjórum hjá Menntamálastofnun, Elínu Lilju Jónasdóttur og Sigríði Wöhler. Nemendum á hverju stigi voru veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjal fyrir besta ljóðið en vinningshafarnir eru:

Birna Karitas Jónsdóttir og Rakel Þóra Einarsdóttir, nemendur í 4. bekk Norðlingaskóla, fyrir ljóðið Kærleikur. Í umsögn dómnefndar segir: Fallegt ljóð sem minnir á heilræðavísur. Hér takast á björtu og svörtu hliðarnar, rauðu og auðu hjörtun og við erum minnt á mátt orðanna, sem geta hvort tveggja sært og sameinað. Boðskapurinn er sígildur: Hlúum að kærleikanum í hjörtum okkar.

Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á yngsta stigi má sjá hér.

Óli Björn Bjarkason, nemandi í 6. bekk Hofstaðaskóla, fyrir Ljóð um ljóð. Í umsögn dómnefndar segir: Skemmtileg lýsing á eðli ljóðsins og ófyrirsjáanleika skáldskaparins. Ljóðið birtist okkur hér sem ólíkindatól sem nær tökum á skáldinu. Orðin flæða og upp vaknar spurningin: Hvaðan koma öll þessi orð, öll þessi ljóð?

Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á miðstigi má sjá hér.

Magdalena Sunna Modzelewska, nemandi í 10. bekk Stapaskóla, fyrir ljóð sitt Gler. Í umsögn dómnefndar segir: Tvær myndir bera uppi þetta tæra ljóð. Hér nær skáldið að lýsa flókinni og þversagnakenndri tilfinningu sem kristallast í átökum hita og kulda, fjarveru og nærveru. Í einfaldleikanum býr margræðnin.

Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á unglingastigi má sjá hér.

Verðlaunaljóð í ljóðasamkeppni grunnskólanema, Ljóðaflóð 2022:

Kærleikur

Óheiðarlegt er að ljúga og plata,
verst er þó að meiða og hata.
Kærleikurinn í hjarta á heima,
hjartað mun kærleikinn vernda og geyma.
Sum hjörtu eru bleik og rauð
en önnur eru svört og auð.

Að segja sannleikann er alltaf best
en platið og lygin er alltaf verst.
Falleg orð gleðja og særa ekki neinn
en ljót orð særa fleiri en einn.
Ekki er gott að klóra og bíta
og alltaf er best á björtu hliðarnar að líta.

Birna Karitas Jónsdóttir og Rakel Þóra Einarsdóttir, verðlaunahafar á yngsta stigi

 

Ljóð um ljóð

Einn dag fann ég mér ljóð
og það var mikið orðaflóð.
Orð úr munni mínum óð,
þetta var svo flott ljóð.
Það var þungt eins og lóð.
Ég setti það í ljóðasjóð.              

Óli Björn Bjarkason, verðlaunahafi á miðstigi

Gler

Ég vildi að ég væri gler,
sem allir sjá í gegnum,
eða kannski ís,
sem bráðnar þegar við snertumst.

Magdalena Sunna Modzelewska, verðlaunahafi á unglingastigi

Menntamálastofnun óskar vinningshöfum til hamingju með frábæran árangur og þakkar grunnskólanemum og kennurum fyrir þátttökuna. Það er von okkar að ljóðasamkeppnin Ljóðaflóð verði nemendum hvatning til að virkja sköpunarmátt sinn og muni efla ljóðlistina í grunnskólum landsins.

 

skrifað 19. JAN. 2023.