Út eru komnar sex nýjar Eurydice-stöðuskýrslur undir samheitinu Structural Indicators 2023. Þær lýsa því hvernig gengur að innleiða ýmis markmið Evrópusambandsins á sviði menntunar og umönnunar barna á leikskólastigi (e. ECEC): Lykilhæfni á skólaskyldustigi (e. key competences); markmið um stafræna hæfni (e. digital competences); að minnka brottfall úr námi eða þjálfun (e. ELET); og að efla starfsþróun kennara og að auka jafnrétti og aðgengi að námi á háskólastigi (e. equity and higher education).
Skýrslurnar byggja á rannsóknum á stöðu þátttökulanda gagnvart markmiðum sem ESB hefur sett sér um menntun og þjálfun og styðjast við samtals 45 lykilvísa. Mikilvægt er að halda því til haga að ekki eru öll 38 þátttökulönd Eurydice-samstarfsins aðilar að sameiginlegri markmiðssetningu ESB en flest þátttökuríki í Eurydice-samstarfinu taka þátt í rannsókninni enda geta skýrslurnar nýst sem grunnur að samanburði menntakerfa og til þess að skoða stöðu ríkjanna með tilliti til markmiða sem margar Evrópuþjóðir setja sér.
Allar skýrslurnar má nálgast hér: https://shorturl.at/bmnr9
Skýrslan lýsir því hvernig gengur að innleiða ýmis markmið Evrópusambandsins á sviði menntunar og umönnunar barna á leikskólastigi (e. ECEC). Sjónum er sérstaklega beint að stöðu mála gagnvart aðgengi, menntun a.m.k. hluta starfsfólks og námskrármálum. Skýrslan leiðir í ljós mikinn mun á milli Evrópuþjóða til dæmis um það á hvaða aldri flest börn fá leikskólapláss, hvaða kröfur eru gerðar til starfsfólks og hvernig námsleg markmið á þessu skólastigi eru innrömmuð. Ýmislegt áhugavert kemur fram í skýrslunni en þar er m.a. hægt að bera saman stöðuna á Íslandi við önnur Evrópuríki. Til að mynda má sjá að nær helmingur þátttökuríkja býður nýbökuðum foreldrum upp á foreldraorlof sem nemur einu ári eða lengur. Þátttökuríkin brúa svo umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með ýmsu móti, t.d. með niðurgreiddri umönnun, sem lesa má um í skýrslunni og bera saman.
Lykilhæfni á skólaskyldustigi – stöðuskýrsla 2023 (e. Key competences at school)
Stöðuskýrslan fjallar um þróun lykilhæfni í menntun og þjálfun og hvernig til hefur tekist að innleiða sett markmið, m.a. fyrir stuðning við starfsnám í Evrópu og þátttöku nemenda í ákvarðanatöku í skólastarfi. Alls taka 38 Evrópuríki þátt í rannsókninni.
Markmið um stafræna færni – stöðuskýrsla 2023 (e. Digital competence at school)
Stöðuskýrslan lýsir því hvernig gengur að nálgast fjórþætt markmið sem sett hafa verið um stafræna færni evrópskra nemenda og kennara: Ólíkar aðferðir til að kenna stafræna hæfni og upplýsingafræði í skólum; þjálfun og eflingu kennara í kennslu í stafrænni færni; námsmat í stafrænni færni; og sjálfbærni í faginu. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að í flestum Evrópuríkjum er byrjað að kenna stafræna færni sem hluta af skyldunámi nemenda strax í grunnskóla. Í mörgum tilfellum er það strax við upphaf skólagöngu en þó er byrjað síðar í nokkrum löndum, allt frá yngsta stigi til unglingastigs. Víða í Evrópu er algengt að upplýsingatækni sé kennd ekki eingöngu sem sérfag, heldur sé litið svo á að tækniþekking nái með einum eða öðrum hætti til allra kenndra greina og því er þessi færni kennd með þverfaglegri nálgun. Yfirleitt er fagið hluti af skyldunámi nemenda í grunnskóla en verður valkvætt á framhaldsskólastigi. Skoðað er hvort og hvernig þjálfun kennara hvað þetta varðar er háttað í kennaranáminu. Í sumum ríkjum eru engar reglur um slíkt en þróun er þó í þá átt að fagið verði hluti af skyldunámi kennara. Oftast hafa háskólastofnanir vald til að ákvarða sjálfir hvernig kennslunni er háttað. Í skýrslunni er framboð og eftirspurn eftir kennurum með hæfni til að kenna stafræna færni skoðuð og hvort þetta fag sé hluti af aðalnámskrá ríkjanna. Almennt virðast Evrópuríkin vera að glíma við skort á kennurum með þessa faggreinaþekkingu, ýmist vegna þess að tiltölulega fáir útskrifast með upplýsingatækni sem sérgrein og/eða vegna þess að skólakerfinu getur reynst erfitt að keppa við betra kaup og kjör sem kennurum getur staðið til boða í upplýsingatækniiðnaði. Til að bregðast við þessu hafa nokkur ríki tekið upp á því að bjóða bæði fagfólki í upplýsingatækniiðnaði sem ekki hefur kennaramenntun, sem og kennurum sem ekki hafa menntun eða bakgrunn í upplýsingatækni, upp á leiðir til endurmenntunar. Slíkt fyrirkomulag er þó ekki að finna alls staðar, t.d. ekki á Íslandi, Noregi eða Finnlandi. Óalgengt er að upplýsingatæknifærni nemenda sé metin á samræmdan máta með prófum á landsvísu. Ekkert land leggur fyrir slík próf á yngsta- og miðstigi grunnskóla og einungis tvö lönd framkvæma leggja þau fyrir á unglingastigi. Á framhaldsskólastigi eru nokkur lönd með samræmd próf fyrir nemendur í upplýsingatækni. Tvö lönd meta svo upplýsingatæknifærni með þessum hætti fyrir alla nemendur. Flest ríki virðast þó ekki vera með regluverk um samræmt mat á upplýsingatæknifærni í skólum, þar með talin þrjú af fimm Norðurlöndum. Ísland er þeirra á meðal. Hjá um það bil þriðjungi þátttökulanda er nám í upplýsingatækni metið sem hluti af ytra mati skóla. Þá er annað hvort upplýsingatæknikennsla metin sérstaklega eða kennsla í upplýsingatækni sem hluti af öðrum námsgreinum. Hjá helmingi þátttökulanda eru engin sérstök ákvæði um notkun upplýsingatækni í skólastarfi og sex þeirra nýta sér ekki ytra mat á skólastarfi yfir höfuð.
Brotthvarf úr námi eða þjálfun – stöðuskýrsla 2023 (e. Early leaving from education and training)
Stöðuskýrslan varpar ljósi á það hvernig gengur að innleiða aðgerðir sem miða að því að draga úr námstöfum og brotthvarfi nemenda úr námi og þjálfun (ELET). Skýrslan metur árangur út frá lykilvísum á sex sviðum sem reynst hafa vel gegn brotthvarfi: viðvörunarkerfi til að koma í veg fyrir brotthvarf; forvarnir gegn ofbeldi og einelti í skólum; kennaramenntun og vitundarþjálfun; markviss stuðningur við nemendur í brotthvarfshættu; þverfagleg stuðningsteymi ; og náms- og starfsráðgjöf.
Kennarastarfið – stöðuskýrsla 2023 (e. Teachers)
Stöðuskýrslan fjallar um nýliðun í kennarastéttinni og aðgerðir menntamálayfirvalda í Evrópulöndum til að sporna gegn kennaraskorti. Mörg þátttökuríki í Eurydice-samstarfinu glíma við kennaraskort. Meðalaldur kennara í heimsálfunni fer hækkandi, nemendum í skólakerfinu fjölgar, brottfall úr stéttinni er umtalsvert og nýliðun í starfið mætir ekki þörf margra Evrópuþjóða fyrir kennara. Í stöðuskýrslunni er farið yfir helstu úrræði sem þátttökuríkin hafa gripið til, til að ráða bót á kennaraskorti, ýmist í einstökum greinum eða almennt. Skoðað er hvaða leiðir aðrar en hefðbundið kennaranám standa opnar þeim sem tilheyra öðrum starfsstéttum og eru ekki með kennslufræðilegan bakgrunn, en hafa áhuga á að snúa sér að kennslu. Skoðaðar eru einnig leiðir sem farnar hafa verið til að greina þarfir kennara fyrir starfsþróun og sérfræðilegan stuðning og hlutverk starfsmats við ákvörðun launa eða framgangs í starfi. Í stöðuskýrslunni eru rakin ýmis fleiri úrræði sem að gagni geta komið.
Jöfnuður í skólakerfum Evrópu – stöðuskýrsla (e. Equity)
Stöðuskýrslan fjallar um jöfnuð í skólakerfum þátttökulandanna, en skoðaður er jöfnuður fyrir öll skólastigin. Í skýrslunni er jöfnuður skoðaður út frá skilgreindum vísum, alls 11 talsins. Þeir eru taldir gefa vísbendingu um hver staðan er í skólakerfunum m.t.t. stefnu og lagasetningar um vernd gegn ójöfnuði á sviði menntunar og aðgengi að skólum og háskólum. Þátttökuþjóðir í rannsókninni eru samtals 38 talsins.