1. Forsíða
  2. Menntamálastofnun auglýsir eftir tilnefningum í fagráð

Menntamálastofnun auglýsir eftir tilnefningum í fagráð

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 23. nóvember.

Samkvæmt 4.gr. laga um Menntamálastofnun nr. 91/2015 og reglugerð um fagráð stofnunarinnar nr. 530/2016 skal forstjóri setja á fót fagráð við stofnunina. Hvert þeirra skal skipað sérfróðum fulltrúum og skulu starfa á eftirtöldum þremur starfssviðum:

  1. náms- og gæðamati,
  2. gerð og miðlun námsgagna,
  3. upplýsingagjafar og þjónustu.

Við skipan í fagráð skal hafa til viðmiðunar að viðkomandi aðili hafi faglega þekkingu og reynslu á starfssviði fagráðsins. Lögð er áhersla á að í ráðunum sitji aðilar sem búa yfir mikilli hæfni, þekkingu og reynslu af starfi á vett­vangi skóla, viðurkenndra fræðsluaðila, fræða- og rannsóknarsamfélags eða atvinnulífs. Einnig skal taka mið af því að hvert fagráð sé skipað einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn.

Við skipan í fagráð skal gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast, sbr. 15.gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Lýsing á starfssviðum

Náms- og gæðamat: Menntamálastofnun hefur eftirlit og metur árangur af skólastarfi. Meðal verkefna eru ytra mat á leik-, grunn- og framhaldsskólum, samræmd könnunarpróf og önnur verkefni sem stofnuninni hefur verið falið að vinna. Þá eru ýmis minni verkefni sem falla undir náms- og gæðamat. Loks sinnir stofnunin mati á stöðu skólakerfisins út frá alþjóðlegum viðmiðum.

Gerð og miðlun námsgagna: Menntamálastofnun sér öllum grunnskólanemendum  fyrir námsgögnum sem eru í samræmi við aðalnámskrá. Í þessu verkefni felast umtalsverðar skyldur bæði hvað varðar gerð námsefnis og þjónustu við skóla. Einnig er í lögum um Menntamálastofnun gert ráð fyrir að stofnunin geti haft hlutverk varðandi námsgögn á öðrum skólastigum.

Upplýsingagjöf og þjónusta: Menntamálastofnun annast söfnun, greiningu og birtingu upplýsinga um menntamál og veitir á grundvelli þeirra stjórnvöldum, fagaðilum og almenningi upplýsingar og leiðbeiningar. Á sviði þjónustu annast stofnunin viðurkenningu einkaskóla, grunn-, framhalds- og lýðskóla og framhaldsfræðsluaðila, innritun nemenda í framhaldsskóla, undirbúning að staðfestingu námsbrautarlýsinga framhaldsskóla og vottanir námskráa í framhaldsfræðslu. Einnig hefur stofnunin umsjón með útgáfu leyfisbréfa fyrir kennara, náms- og starfsráðgjafa og bókasafns- og upplýsingafræðinga og sér um þjónustu við ráð og nefndir sem starfa við stofnunina.  

Hæfnikröfur

Leitað er eftir aðilum sem búa yfir þekkingu og reynslu af starfi á vett­vangi skóla, fræða- og rannsóknarsamfélags eða atvinnulífs. Við val á fulltrúum verður tekið mið af því að hvert fagráð sé skipað einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn. Þannig verður miðað við að í hverju fagráði sé einn fulltrúi sem hefur beina reynslu af skólastarfi í stjórnun eða kennslu, fulltrúi með þekkingu á hagsmunum foreldra og nemenda, fulltrúi með sérmenntun og reynslu af rannsóknum á viðkomandi fagsviði og loks fulltrúi sem hefur reynslu af störfum í atvinnulífi hjá fyrirtækjum eða opinberum stofnunum sem tengjast viðkomandi starfssviði.

Miðað er við að í hverju fagráði sitji allt að 5 fulltrúar en starfsmenn Menntamálastofnunar starfa með hverju ráði. Greitt verður fyrir undirbúning og fundarsetu samkvæmt þóknunarreglum fjármálaráðuneytisins.

Umsóknir með upplýsingum um menntun, starfsreynslu og stuttri greinargerð um sýn viðkomandi á það starfssvið sem hann/hún sækir um sendist til Menntamálastofnunar á netfangið [email protected]. Umsóknarfrestur er til og með 2. nóvember nk.

Nánari upplýsingar veitir Thelma Clausen Þórðardóttir í síma  514-7500.

 

skrifað 02. NóV. 2020.