1. Forsíða
  2. Menntamálastofnun fóstrar Lesið í skóginn

Menntamálastofnun fóstrar Lesið í skóginn

Ákveðið hefur verið að Menntamálastofnun taki að sér verkefnabanka Skóg­ræktar­innar um útinám, Lesið í skóginn. Verkefnin í bankanum verða gefin út á rafrænu formi og miðlað til skóla landsins.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamála­stofnunar, undirrituðu samninginn á starfstöð Skógræktarinnar að Mógilsá við Kollafjörð föstudaginn 22. nóvember. 

Í verkefnabankanum Lesið í skóginn er að finna útikennsluverkefni fyrir öll aldursstig grunn­skólans í öllum námsgreinum og vinna má verkefnin allt árið um kring. Samkvæmt samningn­um endurútgefur Menntamála­stofnun verkefni bankans á raf­rænu formi. Jafnframt verður bætt við nýjum verkefnum sem snerta loftslags­­­mál og kolefnisbindingu.

Í nýju útgáfunni gera Skógræktin og Menntamálastofnun eftirtaldar breytingar á verkefna­bankanum Lesið í skóginn:

  • Endurskipuleggja verkefnabankann þannig að hann fjalli um tré og skóg frá fræi að fullþroska skógi, þ.e. ræktun, umhirðu og nytjar skóga
  • Semja fimm til tíu verkefni sem snúa að kolefnisjöfnun og bindingu
  • Bæta stuttum inngangi við verkefnabankann um skógartengt útinám, búnað, áhöld, efnisöflun, markmið þess og helstu einkenni
  • Tengja hvert verkefni við hæfniviðmið í aðalnámskrá í viðeigandi fögum
  • Hýsa verkefnabankann á rafrænu formi á vef Menntamálastofnunar og gera aðgengilegan fyrir skóla landsins
  • Kynna verkefnabankann grunnskólum og skólastjórnendum

Markmiðin með endurútgáfu þessa verkefnabanka eru:

  • Að bjóða kennurum upp á aðgengileg verkfæri til að vinna með hæfniviðmið aðalnámskrár á flestum greinarsviðum og grunnþáttum menntunar í anda sjálfbærni
  • Að efla tengingu nemenda, kennara og skóla við umhverfi sitt
  • Að efla tengingu nemenda, kennara og skóla við íslenska náttúru
  • Að efla þekkingu á og vitund um gildi skógarins

Vonast er til að þetta muni nýtast vel til skógartengds útináms á öllum skólastigum og jafnframt í sí- og endurmenntun almennings.

skrifað 22. NóV. 2019.