1. Forsíða
  2. Niðurstöður lesfimiprófa maí 2018

Niðurstöður lesfimiprófa maí 2018

Mikil aukning í þátttöku grunnskóla í lesfimiprófum

Niðurstöður úr lesfimiprófum skólaárið 2017-´18 sýna mikla aukningu í þátttöku á milli ára og ljóst að lesfimiprófin hafa svarað þörf skóla fyrir mat á stöðu nemenda í lestri. Nú eru kringum 92% grunnskólabarna sem taka þátt en á síðasta ári var hlutfallið 75%. Skólar meta lesfimi hjá börnum en í henni felst færni sem byggir á lestrarnákvæmni, leshraða og hrynrænum þáttum tungumálsins.

Með því að byggja á ítarlegum upplýsingum um stöðu bekkja og hvers nemanda í lesfimi geta skólastjórnendur, kennarar og skólar mótað áherslur í læsiskennslu og komið betur til móts við þarfir nemenda. Samanburður á niðurstöðum prófanna veita einnig upplýsingar um breytingar á milli ára og eru efniviður fyrir skóla og fræðsluyfirvöld til efla læsiskennslu á eigin vettvangi.

Nú eru rúm tvö ár síðan öll sveitarfélög landsins undirrituðu Þjóðarsáttmála um læsi og lýstu yfir vilja til að setja sér læsisstefnu og fara í aðgerðir til að efla læsi. Mörg sveitarfélög hafa nú sett sér læsisstefnu og fylgt henni eftir með aðgerðum sem hafa skilað góðum árangri. Nú er verið að hanna matstæki í stafsetningu, vef með fjölbreyttum aðferðum til að efla læsi og vinna við gerð lesskilningsefnis fyrir miðstigið er einnig komin á rekspöl. Þá er í gangi ráðgjöf til skóla og sveitarfélaga, nýtt verkefni um snemmtæka íhlutun á leikskólastigi fer af stað í haust, þróunarvinna vegna ritunarkennslu er hafin og fleiri verkefni eru í farvatninu. Þá hefur verið lögð áhersla á vitundarvakningu í formi verkefna eins og Sögur, sumarlestur, Krakkarúv í samstarfi við ýmsa aðila er láta sig læsi varða.  

Þátttaka í lesfimiprófum nú í vor er umfram væntingar og vísbending um að skólar og sveitarfélög leggi vaxandi áherslu á að efla læsi. Nemendur og foreldrar hafa fengið skýrari endurgjöf á framfarir í lestri sem mun vonandi skila sér til lengri tíma. Á þessu stigi er ekki að sjá marktækar framfarir í lestri íslenskra grunnskólanemenda milli ára. Umbætur í menntun taka tíma og góðar líkur eru á að þær aðgerðir sem skólar og sveitarfélög hafa ráðist í muni skila sér í bættum árangri til lengri tíma litið. Með mikilli þátttöku í lesfimiprófum og nýtingu þeirra til að móta umbætur og fylgja þeim eftir er stigið mikilvægt skref á langri vegferð að efla læsi.

Niðurstöður lesfimiprófa Lesferils maí 2018

Hvernig ber að túlka niðurstöður lesfimiprófa

skrifað 12. JúN. 2018.