Út er komin PISA skýrsla 2015 en íslenskir nemendur í 10. bekk tóku þátt í PISA könnuninni vorið 2015 í sjötta sinn.
Niðurstöður úr PISA 2015 benda til þess að læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindi hafi hrakað mikið á síðastliðnum áratug. Læsi á stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið árið 2003. Lesskilningur minnkaði frá 2000 til 2006 en eftir það hefur hann ekki lækkað marktækt.
Þetta er mikil breyting á stöðu íslenskra nemenda til hins verra og hefur hún aldrei verið verri í öllum þremur sviðum PISA, áberandi verri en á hinum Norðurlöndunum. Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur þróunin í PISA heldur batnað síðustu ár en í Finnlandi hefur staðan versnað mikið ár frá ári á öllum þremur sviðum PISA könnunarinnar. Finnland er þó enn með mun betri útkomu en hin Norðurlöndin en Noregur, Danmörk og Svíþjóð raðast núna þétt í kringum meðaltal OECD.
Myndin að neðan sýnir þróun á niðurstöðum PISA könnunarinnar frá upphafi fyrir Ísland. Í myndinni er staðan fyrri ár borin saman við stöðuna 2015. Kassarnir eru fylltir ef staðan það árið er marktækt frábrugðin 2015 en þeir eru tómir ef staðan er ekki marktækt frábrugðin 2015.
Á myndinni eru niðurstöður PISA í þremur greinum frá 2000 til 2015 (*Árið 2015 eru ýmsar breytingar á forsendum, fyrirlögn og tölfræði að baki mælingunni miðað við fyrri ár, þeim er lýst í kafla 1 í skýrslunni).
Samantekt um læsi á náttúruvísindi
Læsi á náttúruvísindi er minna hér á landi en á öðrum Norðurlöndum og gildir það um alla undirþætti, færnisvið og þekkingarsvið náttúruvísinda. Læsi á náttúruvísindi er nú nokkru lægra en það var 2006 þegar læsi á náttúruvísindi var fyrst aðalviðfangsefni PISA. Mikill meirihluti OECD ríkja stendur betur en Ísland á þessu sviði. Staðan á höfuðborgarsvæðinu er almennt betri en á landsbyggðinni. Lækkun meðaltals hefur verið meiri í dreifbýli milli áranna 2006 og 2015 (35 stig) en lækkunin í þéttbýliskjörnum utan höfuðborgarsvæðisins (22 stig) en á höfuðborgarsvæðinu er lækkunin aðeins lítilsháttar (10 stig). Viðhorf til náttúruvísinda eru jákvæð hér á landi í samanburði við Norðurlöndin, þ. á m. ánægja af náttúruvísindum, áhugi, trú á eigin getu og trú á notagildi
Samantekt um stærðfræðilæsi
Stærðfræðilæsi við lok grunnskóla er lakara á Íslandi en í meirihluta OECD ríkjanna og lægra hér en á hinum Norðurlöndunum. Stærðfræðilæsi hér á landi hefur látið undan síga frá PISA fyrirlögninni árið 2003 þegar í fyrsta sinn var megináhersla á mælingu stærðfræðilæsis í PISA. Sú lækkun nemur tæpu skólaári og birtist í fjölgun nemenda á lægri hæfniþrepum og fækkun í efri hæfniþrepum. Ekki varð þó marktæk lækkun á stærðfræðilæsi milli áranna 2012 og 2015. Kynjamunur er nú lítill sem enginn hér á landi sem rekja má til þess að stúlkur sýna nú lakari árangur en áður, fremur en að piltar hafi bætt sig. Höfuðborgarsvæðið er svipað meðaltali OECD en utan þess er stærðfræðilæsi mun lakara.
Samantekt um lesskilning
Ísland er nú neðst Norðurlanda í lesskilningi en var um miðjan hóp árið 2000. Lesskilningur hefur lækkað um sem nemur tæpu skólaári hér á landi á þessum 15 árum, álíka mikið og í Finnlandi, og hafa fá þátttökuríki PISA lækkað jafnmikið á þessu tímabili. Ísland er neðarlega í hópi OECD ríkja í lesskilningi. Fjölgað hefur í lægri hæfniþrepum og fækkað á efri getustigum. Nú (2015) eiga 22% nemenda erfitt með að lesa sér til gagns (ná ekki hæfniþrepi 2) en voru 15% árið 2000. Þetta er svipað hlutfall og hefur verið frá 2006. Dreifing stúlkna á hæfniþrep lesskilnings er svipuð og í OECD löndum að meðaltali. Hærra hlutfall drengja er á lægri hæfniþrepum en í OECD löndunum almennt. Staðan er almennt lakari í dreifbýli í samanburði við höfuðborgarsvæðið. Á höfuðborgarsvæðinu er dreifing nemenda á hæfniþrep áþekk því sem almennt gerist í OECD ríkjunum. Lesskilningur innflytjenda er lakari en lesskilningur innfæddra en þróunin er mjög svipuð hjá báðum hópum.
Umbætur
Ljóst er að grípa þarf til aðgerða. Ekki er hægt að kenna neinum einum um þá stöðu sem nú er uppi en allir bera sameiginlega ábyrgð á að koma að uppbyggingu í íslensku menntakerfi. Ábyrgðarsviðin skarast og mikilvægt er að traust skapist á milli aðila þannig að þeir geti unnið sameiginlega að því að viðhalda þeim góða jöfnuði sem er til náms á Íslandi samhliða því að bæta það sem þarf. Þar skiptir miklu að traust viðhaldist á störfum kennara og skóla.
Þegar er hafin vinna við eflingu læsis með þróun stöðuprófa og að sett séu viðmið um lestur og þeim fylgt eftir með starfi læsisráðgjafa hjá Menntamálastofnun. Byggir það verkefni á reynslu Norðurlanda og þeirra skóla og sveitarfélaga sem náð hafa árangri í að bæta lestur nemenda hér á landi. Mæling á PISA 2015 var gerð áður en læsisverkefnið hófst en sterkar vísbendingar eru um það með öðrum mælingum að þær aðferðir sem beitt er í læsisverkefninu skili árangri.
Í íslensku skýrslunni um PISA 2015 eru nú í fyrsta skipti kaflar þar sem fjallað er um niðurstöðurnar í ljósi rannsókna og frá sjónarhorni fræðimanna í menntavísindum. Einnig er í sérstökum umbótakafla gerð grein fyrir stefnuáherslum og aðgerðum Norðurlanda og áherslum OECD og íslensku fræðimannanna. Settar eru fram tillögur um aðgerðir sem mikilvægt er að ríki, sveitarfélög og skólar beiti sér fyrir.
Áhersla er lögð á að ríkið styðji frekar við umbótastarf á landsvísu m.a. með menntun ráðgjafa og gerð vefnámskeiða er tengjast umbótaaðgerðum. Lagt er til að sett verði skýr viðmið um árangur í aðalnámskrá og unnið verði staðlað stöðumat í stærðfræði og náttúrufræði sem kennurum standi til boða. Loks er lagt til að ríkið beiti sér fyrir endurskoðun á menntun og starfsþróun kennara.
Til sveitarfélaga er því beint að endurskoða áherslur í stoðþjónustu við skóla, efla kennsluráðgjöf í skólastarfi, leggja áherslu á kennslufræðilegt forystuhlutverk skólastjóra og styrkja þátt þeirra í umbótastarfi. Einnig er lagt til að sveitarfélög stuðli að markvissri starfsþróun kennara.
Að lokum er því beint til skólastofnana að leggja áherslu á að stjórnendur séu leiðandi í umbótum samhliða því að efla faglega forystu kennara og möguleika þeirra til að nýta bestu þekkingu og gögn til þróunar og umbóta.