Alls er fjallað um 43 evrópsk menntakerfi í nýrri skýrslu Eurydice, samstarfsnets Evrópusambandsins (ESB) um menntamál, um kennslu og notkun stafrænnar tækni í evrópskum skólakerfum. Skýrslan er birt samtímis í öllum þátttökuríkjunum og fjallað er um námskrár, námsmat, þjálfun kennara og stefnumörkun stjórnvalda. Rannsóknin nær til grunnskóla og framhaldsskóla. Menntamálastofnun hefur jafnframt tekið saman styttri skýrslu á íslensku þar sem tæpt er á ýmsum helstu niðurstöðum stærri skýrslunnar, Ísland speglað við önnur Evrópuríki og nánar fjallað um stöðu þessara mála á Íslandi.
Meðal þess sem fram kemur er að Ísland leggur einna mesta áherslu allra Evrópuríkja á kennslu í upplýsinga- og tæknimennt í grunnskóla, er eitt þriggja ríkja með flestar kennslustundir á því sviði. Greinin er skyldunám í grunnskóla en jafnframt er hagnýting upplýsingatækninnar skilgreind sem lykilfærni þvert á námsgreinar. Hins vegar er stefnumörkun um kennslu og innviði á þessu sviði víðast hvar skýrari en hér á landi og sama má segja um starfsþróun kennara. Hér á landi hafa kennarar aðgang að fjármagni og tíma til að stunda starfsþróun. Þeim er hins vegar ekki sérstaklega beint í ákveðnar áttir á borð við þessa.
Í nær öllum Evrópuríkjum hafa yfirvöld menntamála mótað stefnu um kennslu á sviði stafrænnar færni, ýmist sérstaklega eða sem hluta af breiðari stefnumörkun. Ísland er ekki í þessum hópi en komið er inn á mikilvægi menntunar í upplýsinga- og stafrænni tækni í Hvítbók um umbætur í menntun sem gefin var út árið 2014.
Íslenska skýrslu Menntamálastofnunar má nálgast hér, almenna skýrslu EURYDICE má nálgast hér og enska samantekt úr henni hér.