1. Forsíða
  2. Ný Eurydice skýrsla - Kennslutími í skyldunámi

Ný Eurydice skýrsla - Kennslutími í skyldunámi

Skýrslan „Recommended Annual Instruction Time in Full-time Compulsory Education in Europe 2018/19“ ber saman fjölda kennslustunda í skyldufögum í evrópskum grunnskólum. Mikilvægt er fyrir hagsmunaaðila að geta skoðað kennslustundafjölda sem veittur er á grunnskólastigi, sem og í hverju og einu fagi, og borið saman við önnur Evrópulönd. Alls taka 43 ríki Evrópu þátt í rannsókninni.

Kennslutími í skyldunámi getur verið vísir um áherslur hvers og eins ríkis á tiltekin fög og að einhverju leyti gefið vísbendingu um hvort námsskrárnar leggi áherslu á fög sem talin eru mikilvæg fyrir nemendur og vinnuafl 21. aldarinnar. Skoðaður er heildarkennslustundarfjöldi fyrir yngsta-, mið- og unglingastig í hverju og einu landi, en einnig það hvernig kennslutíma er skipt á tiltekin kjarnafög. Í skýrslunni er einnig að finna landsskýrslur ásamt skýringamyndum sem sýna ráðlagðan kennslutíma á ári fyrir hvern árgang eftir námssviði og landi auk skilgreininga á námssviðum og námskrám. Fram kemur meðal annars að Ísland er meðal örfárra landa þar sem veittur kennslustundafjöldi á miðstigi er minni en á yngsta stigi.

Skýrsluna má nálgast hér.

Skýrslunni er skipt í þrjá hluta: Fyrsti hluti er samanburður á lágmarkskennslustundafögum í lestri, málfræði og bókmenntum, stærðfræði, náttúrufræði og félagsvísindum. Í kaflanum er einnig farið yfir vísa eða markmið sem sett hafa verið á alþjóðavettvangi um árangur 15 ára barna í þessum tilteknu fögum. Annar hluti skýrslunnar skiptist í fimm kafla en í þeim eru kennslutímarnir settir fram með myndrænum hætti fyrir tiltekin fög, skólastig og þátttökulönd.

Eurydice upplýsinganetið hefur árlega safnað upplýsingum um kennslutíma í fullu skyldunámi í grunnskólum á þriðja áratug og frá árinu 2014 einnig í samvinnu við OECD (NESLI upplýsinganetið). Upplýsingarnar byggja á aðalnámskrám, reglugerðum, stöðlum eða tilmælum sem menntayfirvöld ríkis eða sveitarfélaga hafa samþykkt. Til einföldunar er notast við hugtakið „ráðlagður kennslutími“ í greininguni og alltaf er miðað við lágmarkskennslutíma í hverju fagi, en lang flest ríki gefa skólum töluverðan sveigjanleika til að kenna umfram það sem ráðlegt er í kjarnafögum. Gögnin sýna þannig ætlaðan lágmarkskennslutíma og ekki þann kennslutíma sem nemendur fá í raun og veru í skólanum og eru frímínútur, einkakennsla og sjálfsnám er ekki talið með.

 

 

skrifað 12. JúN. 2019.