Töluverður munur er á launum kennara og skólastjórnenda eftir svæðum í Evrópu, samkvæmt nýrri skýrslu frá Eurydice, samstarfsvettvangi Evrópuþjóða á sviði menntamála sem birt var í morgun. Í flestum löndum er einnig umtalsverður munur á launum kennara eftir skólastigum, þar sem leikskólakennarar hafa lægstu launin en kennarar í framhaldsskólum þau hæstu.
Hlutverk Eurydice er að rannsaka og bera saman menntakerfi ólíkra landa, innviði þeirra og virkni. Greining á launum er einn liður í þeim samanburði og í nýju skýrslunni eru þau skoðuð frá ýmsum hliðum. Byrjunarlaun íslenskra grunnskólakennara, leiðrétt fyrir kaupmátt, eru yfir meðaltali í Evrópu. Hins vegar leiðir hækkandi starfsaldur síður til hækkunar á launum bæði á Íslandi og í löndum eins og Noregi og Danmörku, samanborið við flest önnur lönd.
Þá sýnir skýrslan almennt mikinn mun á starfsaldurshækkunum eftir löndum. Að meðaltali tekur það kennara sem kenna á unglingastigi í grunnskóla um 28 ár að vinna sig upp í hæstu laun en bilið getur hins vegar verið allt frá 6 árum upp í 42 ár eftir því hvaða lönd um ræðir. Á Íslandi ná kennarar hámarkslaunum eftir 15 ár.
Í skýrslunni er einnig fjallað um áhrif fjármálakreppunnar árið 2008 á kjör kennara, en í níu Evrópulöndum eru kennaralaun lægri nú en á skólaárinu 2009-2010.
Skýrslan er afrakstur samstarfs OECD og Eurydice um menntamál og ber saman 41 menntakerfi. Margir innlendir aðilar unnu að gagnaöflun fyrir skýrsluna, meðal annarra fulltrúar frá Kennarasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Menntamálastofnun hafði umsjón með verkefninu.
Skýrsluna má nálgast hér.