1. Forsíða
  2. Ný Eurydice-skýrsla - Samanburður á skipulagi og umgjörð leikskóla í Evrópu

Ný Eurydice-skýrsla - Samanburður á skipulagi og umgjörð leikskóla í Evrópu

Út er komin ítarleg Eurydice-skýrsla um málefni leikskólastigsins. Í skýrslunni er m.a. fjallað um skipulag leikskólastarfs, regluverk, námskrár, aðgengi, menntun starfsfólks, gjaldtöku og þátttöku barna á yngsta skólastiginu.

Ýmislegt áhugavert kemur fram í skýrslunni en þar er m.a. hægt að spegla Ísland við önnur Evrópuríki. Í skýrslunni er umgjörð leikskólastarfs flokkað eftir fjórum gæðaviðmiðum: Hvort allt leikskólanámið fari fram á sama stað (en sé ekki skipt upp í eins konar dagvistun fyrri árin og síðan forskólastig á öðrum stað); hvort eitt stjórnvald (mennta- og menningarmálaráðuneytið hérlendis) sé ábyrgt fyrir að móta samræmdar áherslur fyrir öll leikskólaárin; hvort gerðar séu ríkar kröfur um menntun a.m.k. hluta starfsfólks og hvort námskrá sé í gildi fyrir allt leikskólastigið.

Ísland er eitt níu Evrópuríkja sem teljast uppfylla öll þessi gæðaviðmið og telst þannig vera með hvað sterkast skipulag og umgjörð fyrir allt leikskólastigið. Menntunarkröfur til starfsfólks eru einna hæstar hér, námskrá er í gildi fyrir öll árin í leikskóla og gott samræmi er í öllum áherslum og umgjörð. Hins vegar er skóladagur íslenskra leikskólabarna með lengsta móti, leikskólinn ekki gjaldfrjáls líkt og hann er víðast hvar að hluta til og aðgengi að leikskólum ekki tryggt í lögum líkt og víðast hvar í álfunni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Eurydice, upplýsinganets ESB um menntamál. 

skrifað 04. JúL. 2019.