Skýrslan fjallar um málefni sem brennur mjög á stjórnvöldum og menntamálaráðherrum í Evrópu: Staða nemenda með ólíkan tungumála- og menningarbakgrunn.
Frjálst flæði fólks milli landamæra og áhrif þess á skólakerfin í álfunni er ekki nýtt viðfangsefni meðal ríkja Evrópu. Hins vegar hefur flóttamannakrísan, sem náði hámarki árið 2015, stóraukið þrýsting á evrópska grunn- og framhaldsskóla. Margir þeirra hafa tekið á móti hópum nemenda frá stríðshrjáðum löndum sem bætast við þá nemendur sem fyrir eru af erlendum uppruna. Í þessu felst mikil áskorun fyrir skólakerfi í Evrópu.
Mikið ákall hefur verið, ekki síst frá Evrópusambandinu, um að samstilla aðgerðir og hvetja stefnumótendur til að bregðast við með skilvirkum hætti. Greinilegar vísbendingar eru um að á brattann sé að sækja hjá nánast öllum samstarfslöndum Eurydice. Í rannsókninni var stuðst við niðurstöður stórra evrópskra samanburðarrannsókna m.a. PISA, TALIS, ICCS og PIRLS en flest bendir til að námsleg staða nemenda af erlendum uppruna sé marktækt verri en samanburðarhópa, jafnvel þegar búið er að taka tillit til félagslegrar stöðu nemendanna. Eitt af því sem kemur fram er að grunnskólanemar, sem ekki tala kennslutungumálið heima hjá sér, virðast upplifa í meira mæli en aðrir að falla ekki inn í hópinn og að hafa orðið fyrir einelti. Einnig er vísað í Eurostat gögn, sem benda til að tíðni brotthvarfs úr námi hjá þessum hópi sé marktækt hærri en samanburðarhópsins. Í 17 af þátttökulöndunum 42 hafa stjórnvöld sett brotthvarf nema af erlendum uppruna í forgang og skilgreint aðgerðir til að bæta stöðu þeirra.
Í Eurydice skýrslunni er leitast við að skoða hvernig stjórnvöld í álfunni hafa brugðist við nýjum aðstæðum og staðreyndum sem við blasa. Í skýrslunni er sjónum fyrst og fremst beint að aðgerðum og innleiddum stefnum fyrir grunn- og framhaldsskólastigið. Verkferlar og stjórnvaldsákvæði í 42 þátttökuríkjum Eurydice samstarfsins eru skoðuð, þar með talið á Íslandi. Gögn skýrslunnar taka fyrir skólaárið 2017-2018.
Skýrsluna má finna á vef Eurydice.