1. Forsíða
  2. Ný könnun OECD um viðbrögð menntakerfa við COVID-19

Ný könnun OECD um viðbrögð menntakerfa við COVID-19

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) lagði nýlega fyrir könnun til að fá mynd af þeim aðstæðum sem menntakerfi heimsins hafa staðið frammi fyrir vegna COVID-19 faraldursins og viðbrögðum þeirra. Meðal annars var spurt um kennslufyrirkomulag og áherslur í skólastarfi. Skýrsla OECD, Schooling disrupted, schooling rethought: How the Covid-19 pandemic is changing education, var unnin upp úr könnuninni og hana má nálgast hér.   

Könnunin var lögð fyrir frá 25. apríl til 7. maí í 59 löndum, þar á meðal á Íslandi. Svarendur voru ýmist háttsettir embættismenn í menntamálum og aðilar sem fara með stjórn menntamála eða kennarar og skólastjórar. Svarað var undir nafnleynd. Í skýrslunni er hægt að skoða svör þessara tveggja hópa sín í hvoru lagi en fyrir Ísland og flest Evrópulönd er eingöngu um að ræða svör frá fyrri hópnum.  Hér er greint frá helstu niðurstöðum sem unnar voru úr þeim.   

Almennt voru svarendur sammála um að áætlanir um nám nemenda, sem löndin unnu eftir meðan á faraldrinum stóð, hafi verið vel skipulagðar og að framkvæmd þeirra hefði gengið vel (66-70%).  Um leið voru 30% þó sammála því að aðstæðurnar hafi reynt mikið á getu til að spila eftir eyranu.

Svör gefa til kynna að 93% landa hafi notað fjarkennslu í einhverju formi þar sem nemendur fengu kennslu frá sömu kennurum og venjulega. Einnig kemur fram að aðeins helmingur nemenda í löndunum að meðaltali átti kost á því að nálgast allt námsefni eða stóran hluta þess á meðan skólar voru lokaðir. Um 40% svarenda þótti kennslutími og áherslur í kennslu í landinu svipaðar og við venjulegar kringumstæður en 40% voru sammála því að áherslan hafi verið á færri fög en venjulega. 12% svöruðu hins vegar á þá leið að aðallega hafi verið lögð áhersla á að halda nemendum önnum köfnum en lítil áhersla á nám þeirra.

Einnig var spurt um áherslur í skólastarfi á meðan á ástandinu stóð og algengast var að svarendur segðu megináherslu hafi verið lagða á það að tryggja að nám nemenda héldi áfram (63%), að styðja við nám þeirra nemenda sem standa höllum fæti (41%) og að veita kennurum ráðgjöf og tækifæri til starfsþróunar (41%). Þá segir meirihluti svarenda (80%) kennara í landinu hafa meðal annars fengið aðgang að tækni til að deila þekkingu hver með öðrum.

Í skýrslunni koma einnig fram upplýsingar um áætlanir landa um kennslu í kjölfar faraldursins. Langflest lönd hafa stefnt bæði á að meta hversu mikið nemendur hafi misst úr námi (79%) og að miða kennslu að því að vinna það upp (89%), flest með sérstakri áherslu á nemendur sem standa höllum fæti. 

Að lokum má benda á að í skýrslunni er einnig fjallað um það hvers konar undirbúningur og hvaða aðferðir séu líklegar til að gagnast til að viðhalda menntun nemenda ef svipaðar aðstæður koma upp aftur.

skrifað 15. JúN. 2020.