1. Forsíða
  2. Ný samanburðargreining frá Menntamálastofnun: Heimakennsla á skyldunámsstigi

Ný samanburðargreining frá Menntamálastofnun: Heimakennsla á skyldunámsstigi

Út er komin ný  Eurydice skýrsla frá Menntamálastofnun um heimakennslu á skyldunámsstigi;  Home Education Policies in Europe – Primary and Lower Secondary Education

Skýrslan fjallar um lagalegt umhverfi heimakennslu á skyldunámsstigi í þátttökulöndunum 38 og skoðar meðal annars hvað skólaskylda þýðir í hverju landi fyrir sig. Skoðað er hvort foreldrar hafi rétt á að kenna börnum sínum og þá með hvaða skilyrðum.  Að auki er dregin upp stutt lýsing af hverju landi fyrir sig.  

Á Íslandi er skólaskylda fyrir öll börn á aldrinum 6 til 16 ára. Foreldrar geta óskað eftir því að fá að kenna börnum sínum heima, að hluta eða öllu leyti en lítil hefð er fyrir heimakennslu.  Kröfurnar sem uppfylla þarf eru að auki nokkuð strangar. Til að mynda þarf það foreldri sem ætlar að sjá um heimakennsluna, eða annar aðili sem sinnir kennslunni, að hafa leyfi til þess að kenna í grunnskóla. Sækja þarf um leyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi um heimild til þessa og þarf áætlun að liggja fyrir um hvernig tryggt sé að kennslan verði í samræmi við grunnskólalög og aðalnámskrá. Eins getur nemandinn þurft að gangast undir reglulegt námsmat og verður nemandinn að taka lögbundin samræmd könnunarpróf um leið og jafnaldrar hans. 

Athygli vekur, að á hinum Norðurlöndunum eru mjög misjafnar kröfur gerðar til heimakennslu.  

Í Danmörku eru kröfur sem gerðar eru um heimakennslu sambærilegar og á Íslandi. Til dæmis skal fylgjast með námsframvindu og framkvæma námsmat reglulega. Að vísu er ekki gerð krafa um kennaramenntun kennsluaðilans, en talað um að þeir sem annist kennsluna skuli veita kennslu sem er sambærileg við þá sem veitt er í almenna skólakerfinu. 

Hjá nágrönnum okkar í Noregi þarf samþykki frá yfirvöldum til heimakennslu.  Þau hafa  lagalegan rétt til eftirlits með gæðum kennslunnar og námsframvindu nemenda, en eru ekki skyldug til að uppfylla þetta atriði.  Athygli vekur að ekki er gerð krafa um formlega kennaramenntun kennsluaðilans í Noregi.  

Finnar setja engan ramma um heimakennslu og er eina forsenda hennar sú að sótt sé um leyfi til sveitarfélagsins.  Að því fengnu er kennslan í höndum þess sem leyfið fær og engar kröfur eru gerðar um tilskylda menntun fræðsluaðilans. Ekkert námsmat eða eftirlit fer fram af hálfu yfirvalda. 

Niðurstöður sýna að lagaumhverfi heimakennslu er mjög mismunandi eftir löndunum. Þegar Norðurlöndin eru skoðuð sérstaklega þá kemur í ljós að jafnvel milli nágrannalanda eru kröfur til heimakennslu mjög mismunandi. 

skrifað 26. OKT. 2018.